Skráaskiptakóngur fær internetaðgang

Dómstóll í Nýja-Sjálandi hefur heimilað Kim Dotcom, stofnanda skráaskiptavefsíðunnar Megaupload, að nota internetið en hann er í gæsluvarðhaldi í landinu. Sami dómstóll hafði áður hafnað beiðni Dotcom um internetaðgang.

Kim Dotcom, sem heitir raunar réttu nafni Kim Schmitz og er af þýskum og finnskum uppruna, var handtekinn 20. janúar sl. og var ákærður fyrir stórfelld brot á höfundarréttarlögum, fjársvik, peningaþvætti og fleiri afbrot. Um er að ræða eitt umfangsmesta höfundarréttarmál sem rannsakað hefur verið í Bandaríkjunum en Megaupload var um tíma 13. mest sótta vefsvæði heims.

„Ég er afar ánægður með að fá aðgang að internetinu og það mun auðvelda mér og öðrum sakborningum vinnu við vörn málsins,“ sagði Dotcom eftir að niðurstaða dómsins var kunngerð. Að auki fær Dotcom að fara einu sinni á dag í sund og tvisvar í viku í upptökuver þar sem hann vinnur að plötu. „Málskostnaðurinn er gríðarlega mikill, eins og auðsjáanlegt er, og hvers konar tekjuinnstreymi hjálpar til.“

Alríkislögreglan bandaríska, FBI, lokaði Megaupload.com og lét handtaka Dotcom og sex samstarfsmenn hans. Lögreglan áætlar að Dotcom hafi þénað jafnvirði 14 milljóna króna á dag á starfsemi sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert