Brjóstaskoðun leiði til óþarfa meðferðar

Kona gengst undir brjóstakrabbameinsskoðun með röngtenmyndatöku.
Kona gengst undir brjóstakrabbameinsskoðun með röngtenmyndatöku. Reuters

Allt að eitt af hverjum fjórum tilfellum brjóstakrabbameins sem greinist með röngtenskoðun í Noregi hefði aldrei þróast í að verða banvænt eða valdið neinum einkennum. Konurnar gangast því undir krabbameinsmeðferð að óþörfu. 

Þetta er niðurstaða bandarískra vísindamanna sem rannsökuðu 39.888 konur í Noregi. Þeir segja að 15-25% tilfella brjóstakrabbameins þar í landi séu „ofgreind“ sem leiði til skurðaðgerða, lyfja- eða geislameðferða að óþörfu.

BBC segir frá þessu og því að á Englandi sé verið að endurskoða sannanir sem lagðar hafa verið fram til rökstuðnings reglulegri brjóstaskoðun, þar sem deilt sé um árangur hennar. Um allan heim sé unnið út frá því miðmiði að regluleg brjóstakrabbameinsskoðun bjargi mannslífum. Endurskoðun á meðferðum sem 600.000 konur gengust undir bendi hins vegar til þess að óljóst sé hvort regluleg skoðun geri meiri skaða en gagn. 

Norskar konur skoðaðar í Harvard

Það voru vísindamenn við Harvard-háskóla sem rannsökuðu tæplega 40.000 konur í Noregi sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein, þar sem regluleg brjóstaskoðun var innleidd í nokkrum skrefum í ólíkum landshlutum, á tímabilinu frá 1996 til 2005. Niðurstöðurnar, sem birtar eru í fagtímaritinu Annals of Public Health, sýna að 15-25% tilfella hefðu ekki leitt til krabbameinseinkenna.

Þannig hefði regluleg skoðun bjargað lífi einnar konu af hverjum 2.500, en 6-10 hefðu gengist undir krabbameinsmeðferð að óþörfu. BBC hefur eftir dr. Mette Kalager að röngtenmyndaskoðun sé kannski ekki rétt aðferð við greiningu krabbameins, þar sem hún geri ekki greinarmun á þróuðu og vanþróuðu krabbameini. 

„Geislafræðingar hafa verið þjálfaðir til að finna minnstu ummerki um æxli í tilraun til þess að greina eins mörg krabbameinstilfelli og hægt er til að lækna brjóstakrabbamein. En þessi nýja rannsókn bendir til þess að þetta hafi skapað nýtt vandamál fyrir konur, sem er greining á brjóstakrabba sem hefði aldrei leitt til neinna einkenna eða dauða,“ segir dr. Kalager. 

Skimun engu að síður nauðsynleg

BBC talar einnig við dr. Caitlin Palframan, sem er stefnumótandi hjá krabbameinsmiðstöðinni Breakthrough Breast Cancer í Bretlandi. Hún segir að tíðni „ofgreinds“ krabbamein hafi vissulega verið umdeild og gefið konum misvísandi skilaboð um gildi krabbameinsskoðunar.

„Engu að síður teljum við reglulega skoðun nauðsynlega því hún hjálpar okkur að greina brjóstakrabba nógu snemma til að eiga möguleika á meðferð sem er ekki eins aðgangshörð og gefur betri batalíkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert