Hönnuður innsendingakerfis Wikileaks á landinu

Stofnandi WikiLeaks, Julian Assange
Stofnandi WikiLeaks, Julian Assange Reuters

Netkerfaráðstefna Terena, Samtaka rannsókna- og menntaneta í Evrópu, fór vel af stað í Háskólabíói í gær, mánudag. Á sjötta hundrað netkerfasérfræðinga sækir ráðstefnuna sem stendur fram á fimmtudag en fjöldi sérfræðinga og fræðimanna flytur þar erindi.

Einn fyrirlesara á ráðstefnunni er Jake Appelbaum en hann átti þátt í að hanna kerfið Tor sem leyfir fólki að senda upplýsingar m.a. til Wikileaks þannig að ekki er hægt að sjá hvaðan þær koma. 

Að sögn Ýmis Vigfússonar, lektors við HR, má útskýra virkni kerfisins þannig að tölvur víða um lönd eru tengdar saman um svokallað höfuðnet (e. overlay net) þannig að hafi einhver samband við þær er ógerningur að sjá nákvæmlega hvaðan erindið kemur. Þannig býður kerfið í raun upp á nafnlausa tengingu á netið sem að ekki er hægt að rekja.

Appelbaum hefur einkum látið sig málefni afhjúpenda (e. whistleblower) varða í seinni tíð en í erindi sínu mun hann fjalla nánar um Tor. Hefur hann leyft Wikileaks að nota kerfið við takmarkaða hrifningu bandarískra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert