Hvalir loka eyrum fyrir mönnunum

Hvalir
Hvalir AFP

Vísindamenn hafa uppgötvað að hvalir geta dregið úr næmi eyrna sinna til þess að loka á hljóðmengun sem mennirnir skapa í höfunum. Talið er að allt að 250 þúsund sjávarspendýr missi heyrn að einhverju eða öllu leyti vegna hávaða af völdum manna á hverju ári. Hljóðbylgjur geta borist hundruð kílómetra í vatni.

Vélarhljóð, hljóðsjár og tilraunir með vopn eru á meðal þess sem skapar hávaða í höfunum sem getur skaðað heyrn sjávarspendýra. Menn reyna yfirleitt að verja heyrnina með því að halda fyrir eyrun en vísindamenn hafa ekki enn komist að því hvað það er sem hvalir gera til þess að draga úr næmi eyrnanna. Það er bandaríska blaðið The New York Times sem segir frá þessu á vefsíðu sinni.

Þó að niðurstöður rannsóknarinnar sem leiddi þennan hæfileika hvalanna í ljós séu ekki endanlega staðfestar vekja þær vonir um að hægt sé að þróa hljóðmerki sem varar sjávardýr á borð við hvali og höfrunga við hljóðmengun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert