Kynlífsatriði umturna sálarlífi unglinga

Kvikmyndir um njósnarann Austin Powers voru meðal þeirra sem rannsakaðar …
Kvikmyndir um njósnarann Austin Powers voru meðal þeirra sem rannsakaðar voru. Rannsóknin leiddi í ljós að kynlífsatriði í kvikmyndum á borð við Austin Powers gætu breytt lífsviðhorfum unglinga til frambúðar. Reuters

Sálfræðingar við Dartmouth-háskóla í New Hampshire hafa komist að þeirri niðurstöðu að unglingar sem horfa á kynlífsatriði í kvikmyndum séu líklegri til þess að hafa kynmök við fleira fólk en annars og jafnframt án getnaðarvarna. Sagt er frá rannsókn þeirra á vef The Daily Telegraph.

Rannsóknin, sem byggð var á 700 vinsælum kvikmyndum, leiddi í ljós að áhorf á slík atriði gæti haft „djúpstæð áhrif“ á sálarlíf unglinga.

Rannsakendur ályktuðu jafnframt að unglingar sem horfðu á slík atriði væru líklegri til þess að taka áhættu í framtíðarsamböndum.

Niðurstöðurnar bentu til þess að þátttakendur í rannsókninni væru fimmfalt líklegri til að missa sveindóm/meydóm á næstu sex árum fyrir hverja einustu klukkustund af áhorfi á kynferðislegt efni.

„Unglingar sem horfa mikið á kynferðislegt efni í kvikmyndum byrja yngri að stunda kynlíf, eiga fleiri bólfélaga og eru ólíklegri til þess að nota smokka með þeim,“ sagði dr. Ross O'Hara, sem fór fyrir rannsókninni.

„Þessi rannsókn og heimfærsla hennar á aðrar rannsóknir benda til þess að foreldrar verði að koma í veg fyrir að ung börn þeirra horfi á kynlífsatriði í kvikmyndum.“

1.228 börn á aldrinum 12-14 ára tóku þátt í rannsókninni og kynhegðun þeirra var svo greind og rannsökuð sex árum síðar.

Hver einasti unglingur greindi frá því hvaða kvikmyndir hann hafði séð af handahófskenndum 50 kvikmynda lista.

Sex árum síðar voru þeir spurðir hversu gamlir þeir voru þegar þeir byrjuðu að stunda kynlíf, hversu marga bólfélaga þeir hefðu átt og hversu áhættusöm kynhegðun þeirra væri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert