Stjörnuhrap á himni?

Grunur leikur á að um loftstein sé að ræða.
Grunur leikur á að um loftstein sé að ræða. mynd/Ekaterina Naryshkina

„Ég hélt að þetta væri þota. En svo tók ég eftir því að hún var að fara niður,“ segir Ekaterina Naryshkina sem tók ljósmyndir af fyrirbæri sem birtist á himni nú síðdegis í dag. Hún kveðst fullviss um að þetta hafi ekki verið þota á flugi og grunar að um loftstein hafi verið að ræða.

Ekaterina tók myndirnar rétt fyrir kl. 16 í Reykjavík í dag og notaði aðdráttarlinsu til að sjá fyrirbærið enn betur. „Ég sá í rauninni ekki þotu. Ég sá eins og eitt spor,“ segir hún og bætir við að sér hafi þótt þetta vera áhugavert.

Hún segir ennfremur að fyrirbærið hafi farið hratt niður. Allt í einu hafi hægt á því þar til það stöðvaðist og hékk í loftinu í nokkrar mínútur. Síðan hvarf það sjónum hennar.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að loftsteinar birtist sem hraðskreiðar ljósrákir á næturhimninum og séu því oft kallaðir stjörnuhröp.

Á síðunni er birt tafla sem sýnir helstu loftsteinadrífur eða loftsteinahríðir sem geti sést yfir Íslandi að vetrarlagi. Tekið er fram að tímasetning á hámarki hverrar loftsteinadrífu breytist frá ári til árs en á þessum árstíma nái svokallaði leonítar hámarki í kringum 18. nóvember.

„Loftsteinar eru smæstu agnirnar sem eru á braut um sólina og eru flestir þeirra á stærð við sandkorn eða ennþá minni. Loftsteinar eru, líkt og smástirni, steinklumpar í geimnum. Þeir eru venjulega úr bergi, bergi og járni eða járni. Flestir loftsteinar eru leifar frá þeim tíma þegar sólkerfið myndaðist fyrir um 4.600 milljónum ára,“ segir á Stjörnufræðivefnum.

„Vegna smæðar sinnar verða loftsteinar fyrst sýnilegir þegar þeir byrja að falla í gegnum lofthjúp jarðar. Þá er oft talað um hrapsteina eða stjörnuhrap. Þeir lýsa vegna núnings við sameindir lofthjúpsins sem skella á steinunum á miklum hraða. Núningurinn veldur því að loftið í kringum steininn glóir. Flestir loftsteinar brenna algjörlega upp í lofthjúpnum í um 100 km hæð. Þeir sjást sjaldan í meira en fáeinar sekúndur og ferðast á hraðanum 5-30 km/s. Stundum ná loftsteinarnir ekki að brenna upp til agna í lofthjúpnum og falla til jarðar,“ segir ennfremur á vefsíðunni.

Myndin af fyrirbærinu var tekin síðdegis í dag.
Myndin af fyrirbærinu var tekin síðdegis í dag. mynd/Ekaterina Naryshkina
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert