Ljós í móðurkviði þroskar sjónina

Mýs sem verja meðgöngunni í algjöru myrkri eignast afkvæmi með þroskaskert augu. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtist í tímaritinu Nature. Vísindamennirnir vona að niðurstöðurnar verði til þess að dýpka skilning á augnsjúkdómum.

Í umfjöllun BBC um rannsóknina kemur fram að inni í líkama bæði músa og manna berist ekki nægjanlegt ljósmagn til að hægt væri að sjá í kringum sig. Engu að síður berst örlítið ljósmagn í gegnum líkamsvefinn og hefur þetta örlitla ljós m.a. verið notað til að festa á filmu hvernig sýkingar berast um líkamann.

Nú telja vísindamenn við Kaliforníuháskóla í San Francisco og barnaspítalann í Cincinnati að ljósið sem berst inn í móðurkvið hafi áhrif á þroska augans á fósturstigi, að minnsta kosti hjá músum. Ljósið sé fóstrunum nauðsynlegt til að æðakerfið í auganu þroskist rétt. Sjónhimnan verður til með hjálp frá þéttu neti háræða sem síðan eyðast, líkt og stillansar við nýbyggingu, því ella myndu æðarnar trufla sjónina.

Að sögn vísindamennina gerðist þetta hins vegar ekki hjá afkvæmum músa sem voru í algjöru myrkri alla meðgönguna. „Þetta er ekki einhver smávægilegur munur heldur meiriháttar áhrif á þroska sjónhimnunnar sem er háð því að ljós berist gegnum líkamann,“ hefur BBC eftir prófessornum Richard Lang við Cininnati barnaspítalann. Hann segir þessar niðurstöður koma verulega á óvart.

Vitum lítið um augað

Margir augnsjúkdómar sem hrjá manninn eiga upptök sín í æðakerfi augans og vonast vísindamennirnir til að rannsóknin dýpki skilning á þeim. Sem dæmi má nefna að hjá sumum fyrirburum verður óeðlilegur vöxtur í háræðum í auganu sem veldur stundum skaða á sjónhimnunni. Lang segir að þetta sé sambærilegt við það sem gerðist hjá músunum í rannsókninni.

Með rannsókninni sýndu vísindamennirnir fram á að ljósið sem barst inn í móðurkvið virkjaði prótínið melanopsín, sem einnig er í mönnum og kemur m.a. að því að stilla hina svo nefndu líkamsklukku. Hins vegar er ekki ljóst hvort þroskaferlið hjá fóstrum manna og músa sé hið sama. Frekari rannsókna er því þörf að sögn vísindamannanna.

BBC hefur eftir prófessor Robin Ali við University College í London að rannsóknin sé afar áhugaverð og veiti nýja innsýn í það hvernig þróun sjónhimnunnar sé skoðuð. „Þetta undirstrikar hversu takmarkaður skilningur okkar á auganu er enn.“

Tímaritið Nature

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert