Mörgæsir ná alltaf bráð sinni

Japanskir vísindamenn hafa fengið einstakar upplýsingar um veiðiaðferðir mörgæsa með því að festa örsmáar myndavélar á þær. Rannsókn þessi hefur leitt í ljós að mörgæsirnar ná alltaf bráð sinni og hægja þarf á myndböndunum til að standa þær að verki - svo gríðarlega snöggar eru þær.

Myndavélar voru festar við 11 adelie-mörgæsir á Suðurskautslandinu. Hver vél vó aðeins 33 grömm og mældu einnig hitastig, staðsetningu og fleira.

Yuuki Watanabe sem starfar við Heimskautastofnunina í Tókýó, segir að vísindamönnunum hafi komið mjög á óvart að mörgæsirnar beita ólíkum aðferðum eftir því hvað þær eru að veiða.

Mörgæsirnar geta veitt tvær átur (kríli) á innan við sekúndu. 

„Núna vitum við hvað adelie-mörgæsir éta, hversu mikið og getum áttað okkur á því hvernig hún lifir af og tengist umhverfi sínu,“ segir Watanabe við AFP-fréttastofuna.

Viðkvæmt búsvæði mörgæsarinnar á Suðurskautslandinu á í vök að verjast vegna loftslagsbreytinga. Vísindamenn óttast að með bráðnun heimskautaíssins eigi mörgæsum eftir að fækka umtalsvert.

Watanabe segir myndavélarnar gefa einstaka innsýn í líf mörgæsanna.

„Við vitum núna að þær lifa aðallega á fisknum sem heldur til rétt undir ísnum. Það sýnir okkur að adelie-mörgæsir þrífast aðeins í námunda við ís.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert