Skyggnist milljarða ára aftur í fortíðina

Kári Helgason, doktorsnemi í stjarneðlisfræði hjá NASA
Kári Helgason, doktorsnemi í stjarneðlisfræði hjá NASA mbl.is

Teymi stjörnufræðinga frá ýmsum löndum hefur fundið fyrstu ummerki um aragrúa svarthola frá árdögum alheimsins. Sú uppgötvun gefur vísindamönnum betri sýn á myndun og þróun vetrarbrauta.

Einn þeirra sem unnu að rannsókninni er Íslendingurinn Kári Helgason, doktorsnemi í stjarneðlisfræði við Goddard-geimrannsóknastöð NASA í Maryland-ríki í Bandaríkjunum.

„Þó að menn viti svo sem út frá líkönum að það áttu að vera svarthol þarna til staðar og að þau hefðu átt að myndast á þessum tíma, þá vitum við ekki hvernig og með hvaða hætti þau mynduðust. Það hafa aldrei fundist nein ummerki um þau fyrr en núna,“ segir Kári um uppgötvunina.

Rannsóknin fór þannig fram að stjörnufræðingarnir notuðu tvenns konar geimsjónauka, annars vegar innrauðan og hins vegar röntgen, og báru saman myndir af sama svæði á himninum.

Með því að útiloka ljós frá stjörnum og öðrum fyrirbærum í forgrunni tókst þeim að greina röntgenbakgrunnsgeislun frá þessum frumsvartholum alheimsins í fyrsta sinn.

Einn hluti af ráðgátunni eru risasvarthol sem staðsett eru í miðju vetrarbrauta dagsins í dag að sögn Kára. Það er enn hjúpað leyndarhulu hvernig þessi svarthol mynduðust og hvaða áhrif þau hafa á umhverfið og stjörnumyndun í vetrarbrautunum. „Þessi mikla svartholavirkni í upphafi alheims getur útskýrt dreifingu svarthola dagsins í dag. Spurningin er aðallega um samspil risasvartholanna og stjarnanna sem mynduðust á eftir í vetrarbrautunum. Þetta er svolítið spurning um eggið og hænuna. Hvort risasvartholin móti vetrarbrautirnar eða hvort þær fæði svartholin og þau þróist svo saman,“ segir Kári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert