Notendur lyfjanna miklu fleiri hér

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um notkun lyfja með innihaldsefnið metýlfenídat og meinta misnotkun á lyfjunum hér á landi. Ljóst er að heildarávísanir á metýlfenidatlyf eru að aukast en breytingar eru þó mjög mismunandi eftir lyfjum, segir á vef landlæknis en ritalín meðal þeirra lyfja sem innihalda metýlfenídat.

Flestar ávísanir þessara lyfja eftir mánuðum voru í apríl 2013, sem skýrist af tilkomu nýs greiðsluþátttökukerfis lyfja hjá Sjúkratryggingum Íslands er tók gildi í byrjun maí 2013. Notkun lyfjanna er umtalsvert meiri hér á landi en í nágrannalöndunum, en árið 2012 voru meðaldagskammtar á hverja þúsund íbúa á dag 17,2 á Íslandi en 7,0 í Danmörku. Þessi mikla notkun endurspeglar aðallega fjölda notenda, segir á vef landlæknis.

Lyfin eftirsótt af fíklum - læknar þurfa að vera á varðbergi

„Samkvæmt upplýsingum frá aðilum sem sjá um meðferð fólks í fíknivanda eru þessi lyf eftirsótt af skjólstæðingum þeirra en misnotkun lyfjanna veldur miklum vanda í þeim hópi. Í eftirliti Embættis landlæknis eru mörg mál í gangi er varða ávísanir þessara lyfja. Fréttir berast reglulega af ólöglegum innflutningi ýmissa efna en lyf sem innihalda metýlfenídat finnast þó sjaldan, sem bendir til þess að misnotkun lyfjanna sé bundin við ávísuð lyf hér á landi.

Velferðarráðuneytið ásamt ýmsum stofnunum hafa reynt að bregðast við þessari þróun hér á landi. Misnotkun þessara lyfja er margbreytileg og læknar þurfa að vera á varðbergi fyrir vísbendingum um misnotkun sem getur verið vandasamt þegar þeir sem fá lyfjunum ávísað eru ekki endilega að taka þau. Vandamálið ristir djúpt í íslensku samfélagi þar sem togast á þörf sjúklinga fyrir lyf og misnotkun einstaklinga á kerfinu,“ segir á vef landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert