Miklagljúfur undir Grænlandsjökli

Landslagið á Grænlandi er stórkostlegt - einnig það sem falið …
Landslagið á Grænlandi er stórkostlegt - einnig það sem falið er undir íshellunni. mbl.is/Rax

Gríðarmikið gljúfur, jafndjúpt og Miklagljúfur Bandaríkjanna, er að finna undir Grænlandsjökli, að sögn vísindamanna. Áður en íshellan myndaðist fyrir um 4 milljónum ára er talið að straumþungt vatnsfall hafi legið um gljúfrið, frá miðju Grænlandi og til strandar.

Gljúfrið nær frá miðju Grænlands og til Norðurstrandarinnar og þótt það sé hulið ís rennur raunar líka vatn um það, frá brún jökulsins og til sjávar.

„Það er stórkostlegt í sjálfu sér að uppgötva 750 km langt gljúfur sem hefur verið falið undir jökli í milljónir ára, en þessi rannsókn hefur líka mikilvæga þýðingu því hún dýpkar skilning okkar á fortíð Grænlands,“ segir vísindamaðurinn David Vaughan hjá bresku rannsóknarstofnuninni Antarctic Survey.

„Ísbreiðan á þessu svæði hefur áhrif á hækkandi yfirborð sjávar og þessar rannsóknir hjálpa okkur að setja núverandi breytingar í samhengi.“

Vísindamennirnir fundu gljúfrið m.a. með hjálp tækni frá Nasa sem sendir útvarpsbylgjur gegnum ísinn til að mæla dýptina niður á klöpp. Niðurstöðurnar voru birtar í bandaríska tímaritinu Science. Vísindamenn segja þær til marks um það hversu lítið sé enn vitað um landslagið undir jöklum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert