Skotland útblásturslaust 2050

Útblástur bíla verður óþekkt fyrirbæri í Skotlandi eftir 37 ár, …
Útblástur bíla verður óþekkt fyrirbæri í Skotlandi eftir 37 ár, nái áætlun yfirvalda fram að ganga. Wikipedia

Skoska ríkisstjórnin hefur kynnt áætlun um að bæir og borgir landsins verði laus við útblástur bensín- og dísilvéla árið 2050. 

Hluti af áætluninni er að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að skipta yfir í rafmagnsbíla á borð við Renault Zoe og Nissan Leaf, segir í frétt Autoexpress. Að sama skapi mun bílaflota skoska ríkisins verða skipt út fyrir rafmagnsbíla, en það mun kosta um 2,7 milljarða króna. Loks verður hleðslustöðvum komið fyrir í öllum helstu byggingum hins opinbera.

Í áætluninni, sem fengið hefur nafnið „Kveikt á Skotlandi“, er einnig gert ráð fyrir að árið 2030 verði helmingur allra jarðeldsneytisknúinna bíla horfinn úr borgum landsins og að 2040 verði nærri enginn nýr bíll seldur í Skotlandi með skaðlegan útblástur. 

Freistandi fyrir íbúa að skipta yfir í rafmagn

Rannsóknir sýna að um þriðjungur allra bílferða í Skotlandi er innan við tvær mílur (3,2 km) á lend, og um fjórðungur er innan við mílu (1,6 km).

Til að auðvelda íbúum að skipta yfir í rafmagnsbíla hefur ríkisstjórnin ákveðið að styrkja kaupendur þeirra um tæpa milljón króna, auk þess sem hleðslustöðvar fyrir heimili verða niðurgreiddar að fullu.

Auk þess að veita íbúum ráðgjöf um kosti þess að kaupa rafmagnsbíl, bæði fyrir umhverfið og fjárhaginn, mun ríkisstjórnin fljótlega fara að liðka til fyrir þeim sem keyra slíka bíla, til dæmis með því að lækka ferjugjöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert