Ófrjósemi eldri kvenna orðum aukin

Börn á fæðingadeild.
Börn á fæðingadeild. AFP

Barnlausar konur yfir 25 ára aldri kannast flestar við augngotur frá ættingjum og velviljaðan en þreytandi þrýsting um að klukkan tifi og nú ríði á að skella í eitt barn eða tvö áður en það verði of seint. BBC fjallar um það í dag að ýmsar ranghugmyndir séu uppi um aldur og frjósemi kvenna.

Jean Twenge er sálfræðingur við San Diego háskóla í Bandaríkjunum. Hún gekk í hjónaband 34 ára gömul en þegar hún fór að huga að barneignum í kjölfarið en þá slengdi heimilislæknirinn hennar fram þeirri tölfræði að ein af hverjum þremur konum yfir 35 ára aldri reyndi í heilt ár að geta barn án þess að takast það.

Byggt á kirkjuskrám frá 18. öld

„Það var hræðilegt fyrir mig að heyra þetta, rétt eins og það er fyrir margar konur á fertugsaldri,“ hefur BBC eftir Twenge. Hún ákvað að reyna að komast að því hvaðan þessi tölfræði væri fenginn. Niðurstaðan kom henni á óvart.

„Tölfræðin sem þetta byggir á er fenginn frá Frakklandi á 18. öld. Þar voru bornar saman fæðingarskrár kirkna og upp úr því dregin þessi tölfræði um hversu líklegt það væri að kona gæti orðið þunguð eftir ákveðin aldur.“

Twenge bendir á að staða kvenna á Vesturlöndum í dag sé gjörbreytt frá því sem var meðal franskra almúgakvenna á 18. öld, sem hvorki höfði aðgang að nútíma heilsugæslu né eins fjölbreyttri næringu og í dag.

82% urðu þungaðar innan 12 mánaða

Á hinn bóginn útskýrir Twenge að í dag sé komin inn stór breyta sem geri stöðuna talsvert flóknari í dag, en það eru getnaðarvarnir. „Það er mjög erfitt að draga ályktanir um aldur og frjósemi kvenna í nútímasamfélagi þar sem getnaðarvarnir eru útbreiddar.“

Engu að síður hafa verið gerðar nýrri rannsóknir, sem sýna talsvert aðra stöðu en var uppi fyrir 300 árum í Frakklandi. Þar á meðal er rannsókn sem birtist í tímaritinu Human Reproduction árið 2004, sem sýndi að 82% kvenna sem reyndu að eignast barn á aldrinum 35-39 ára urðu þungaðar innan 12 mánaða.

Sú rannsókn var gerð meðal 780 kvenna í 7 borgum Evrópu. BBC bar málið undir David James, hjá bresku heilbrigðisvísindastofnuninni Nice, sem segir óhætt að fullyrða að niðurstöðurnar séu áreiðanlegri en sögulega tölfræðin.

Voru ekki að reyna að verða þungaðar

„Mikilvægasta atriðið í þeirri rannsókn er að þar varstu með konur sem voru raunverulega að reyna að verða þungaðar,“ sagði James og sagði þetta því mun raunhæfari mælikvarða. Til samanburðar sagði hann alls óvíst að frönsku konurnar hafi vonast eftir getnaði, þvert á móti sé líklegt að þær hafi markvisst reynt að verða ekki þungaðar og jafnvel forðast samfarir.

„Það er enginn vafi á því að pör hafa sjaldnar samfarir eftir því sem þau eldast,“ segir James og bendir á að á 18. öld hafi fólk elst hraðar en í dag.

Rannsóknin frá 2004 bendir einnig til þess að frjósemi minnki ekki eins hratt með aldrinum eins og margir telja. Samkvæmt henni tókst 86% kvenna á aldrinum 27-34 ára að verða þungaðar innan árs, svo hlutfallið í næsta aldurshóp fyrir ofan, 82%, var aðeins litlu lægra.

Hættan á fæðingargöllum óveruleg

Eftir fertugt verður myndin hinsvegar óljósari, enda segir James að takmörkuð gögn séu til um tilraunir kvenna til þungunar á þeim aldri. „En eins og við vitum af nokkrum þekktum dæmum meðal fræga fólksins þá er alls ekki ómögulegt fyrir konur að verða þungaðar jafnvel seint á fimmtugsaldri.“

James bætir því einnig við að vísbendingar séu um að frjósemi kvenna sé að aukast og konur um fertugt séu líklegri en áður var talið til þess að geta eignast barn. Í ofanálag segir James að hugsanlegt sé að áhættan á fæðingargalla hjá eldri mæðrum hafi verið orðum aukin.

Hættan á litningagalla er 1 á móti 500 hjá tvítugum mæðrum. Hún eykst í 1 á móti 400 hjá þrítugum mæðrum en er 1 á móti 60-70 hjá fertugum mæðrum, samkvæmt BBC. „Ef við snúum þessu við þýðir það enginn litningagalli kemur fram hjá 59 af hverjum 60 konum sem verða þungaðar um fertugt,“ segir James.

Meiri munur þegar kemur að tæknifrjóvgun

Á hinn bóginn eru minni líkur á því að tæknifrjóvgun takist hjá eldri konum en hjá ungum. Þar er mun meiri munur á konum um þrítugt og um fertugt, þeim yngri í vil. Þá ber þó að hafa í huga að frjósemisvandamál sem konur yfir 30 upplifa þurfa ekki að hafa neitt með aldur þeirra að gera. Ef þær hefðu reynt að verða þungaðar á milli 20-30 ára gæti vel verið að sami vandi hefði komið í ljós þá.

BBC ræðir einnig við frjósemissérfræðinginn og prófessorinn Lord Winston, sem segir að almennar staðhæfingar um æskilegan aldur kvenna við getnað byggi á veikum grunni. „Á endanum komumst við að því að mikið af þessum ráðleggingum eru innihaldsrýrar, óþarfar og jafnvel bara rangar,“ segir Winston.

„Staðreyndin er sú að besta leiðin til að geta barn er einfaldlega annað hvort í rúminu eða á loðfeldi við arineld.“

Umfjöllun BBC Magazine

Jennifer Aniston er 43 ára. Í mörg ár hefur verið …
Jennifer Aniston er 43 ára. Í mörg ár hefur verið um það rætt í slúðurmiðlum hvort og þá hvenær hún ætli að eignast börn. AFP
Börn á fæðingadeild.
Börn á fæðingadeild. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert