Fordæma brottvísanir íslenskra stjórnvalda

Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International.
Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. mbl.is/Arnþór

Íslandsdeild Amnesty International fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru mansalsþolendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu Amnesty International.

Deildin sakar stjórnvöld um ómannúðlega og vanvirðandi meðferð á þremur nígerískum konum sem var vísað úr landi aðfaranótt 14. maí.

Konurnar þrjár höfðu lýst því yfir að vera þolendur mannsals. Þær fengu synjun um alþjóðlega vernd fyrr í mánuðinum og var þeim í kjölfarið komið úr landi og sendar aftur til Nígeríu.

Íslensk stjórnvöld fylgi ekki alþjóðlegum skuldbindingum

Íslandsdeild sakar íslensk stjórnvöld um að fylgja ekki alþjóðlegum skuldbindingum sínum. Í þessu samhengi vísar Íslandsdeild á alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland er hluti að. Það eru samningar eins og Istanbúlsamningurinn, Evrópuráðssamningurinn, Kvennasamning Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í Istanbúlsamningum er kveðið á um að aðildarríki geri nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að virða þá meginreglu í samræmi við skyldur þjóðarréttar að vísa ekki hælisleitanda aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.

Mikilvægt að taka tillit til stöðu kvenna og stúlkna

Í yfirlýsingunni áréttar Íslandsdeild Amnesty að mikilvægt sé að taka sérstakt tillit til stöðu og þarfa kvenna og stúlkna við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi.

„Það er staðreynd að staða kvenna í neyð og á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi,“ segir í yfirlýsingunni.

Íslandsdeild hvetur íslensk stjórnvöld til að endurskoða stefnu sína varðandi brottvísanir þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert