Íslenskufærni myndi hraða fjölskyldusameiningum

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ættu þeir hælisleitendur sem kunna íslensku að fá flýtimeðferð á fjölskyldusameiningum? Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar er þeirrar skoðunar. 

Nýtt útlendingafrumvarp setur strangari skilyrði um dvalarleyfi og fjölskyldusameiningar, en allsherjar- og menntamálanefnd leggur til undanþágur sem eiga, að sögn nefndarinnar, að stuðla að inngildingu útlendinga í íslensku samfélagi.

Undanþágur væru m.a. skilyrtar af því að viðkomandi hælisleitandi geti framfleytt sér á tryggan hátt og hafi grunnþekkingu á íslensku. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar.

Athygli vakti þegar palestínskir mótmælendur kröfðust þess í janúar að …
Athygli vakti þegar palestínskir mótmælendur kröfðust þess í janúar að stjórnvöld beittu sér fyrir fjölskyldusameiningum, þar sem fjölskyldur þeirra voru fastar á Gasaströndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dvalarleyfi úr 4 árum í 2 ár  

Þingmenn ræð í kvöld um frumvarpið og breytingatillögurnar á Alþingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir styttingu gildistíma dvalarleyfa úr 4 árum í 2 ár, auk þess sem að fjölskyldusameiningar verði ekki heimilar fyrr en viðkomandi hafi endurnýjað leyfið sitt a.m.k. einu sinni.

Þá kemur fram að aðstandendur útlendinga sem fengið hafa viðbótarvernd á Íslandi öðlist ekki rétt til fjölskyldusameiningar fyrr tvö ár eru liðin eftir veitingu viðbótarverndar, þegar þeir hafa fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað. 

En fólk sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þyrfti samt að láta endurnýja dvalarleyfi sitt tvívegis – dvelja á Íslandi í 4 ár – til að fá fjölskyldusameiningu.

Allsherjar og menntamálanefnd leggur aftur á móti til undantekningu við þessu, m.a. með inngildingu að leiðarljósi. 

Íslenskufærni gæfi útlendingum forskot

Meirihluti nefndarinnar telur rétt að heimila undantekningu frá þessum kröfum 

Ef útlendingurinn hefur haft dvalarleyfi í að minnsta kosti eitt ár, verið virkur á atvinnumarkaði í átta mánuði, geti framfleytt sér á tryggan hátt í samræmi við lög um grunnskilyrði dvalarleyfis og uppfyllir skilyrði um íslenskukunnáttu, getur hann fengið samþykkt fjölskyldusameiningu fyrr.

„Þá verði einnig gerð krafa um að viðkomandi uppfylli skilyrði um íslenskukunnáttu og hafi til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur sem sótt er um leyfi til fjölskyldusameiningar fyrir,“ skrifar nefndin, sem færir það í hendur ráðherra að útfæri nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis.

Hversu góða íslensku þarf maður að tala?

Viðkomandi þyrfti að hafa lagt stund á íslenskunám til að fá þessa flýtimeðferð, segir nefndin.

Eðlilegt sé að gera kröfu um kunnáttu á tilteknu færniþrepi í Evrópska tungumálarammanum.  Nefndin stingur t.d. upp á færni á þrepi A2 í þremur færniþáttum af fimm, svo hægt væri að taka tillit til þeirra sem ekki hafa grunnþekkingu á latneska stafrófinu við komu til landsins.

„Hvað skilyrði um íslenskukunnáttu varðar telur meiri hlutinn mikilvægt að þeir sem falla undir undanþáguna hafi lagt stund á íslenskunám í því skyni að stuðla að frekari inngildingu þeirra í samfélagið,“ segir í nefndarálitinu.

Samfylkingin vill fara „norsku leiðina“

Dagbjört Hákonardóttir, fulltrúi Samfylkingingarinnar í nefndinni, skilaði inn áliti 2. minnihluta nefndarinnar. Flokkur hennar hefur sent mbl.is álitið en þar leggst Samfylkingin gegn 2 ára biðtíma fyrir fjölskyldusameiningu en vill þess í stað gera skilyrði um trygga framfærslu.

Samfylkingin leggur til „norsku leiðina“ til að taka á jaðartilvikum, sem felur í sér ákveðna breytingu á 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga en ekki brottfall greinarinnar. Þar er kveðið á um að aðeins sérstök tengsl, en ekki sérstakar ástæður, geti orðið tilefni efnismeðferðar, þó ekki í þeim tilvikum þar sem umsækjendur hafa þegar fengið vernd í öðru ríki.

„Með því að fara norsku leiðina yrði horfið frá beitingu matskenndrar reglu um sérstakar ástæður og leitast við að tryggja, með hlutlægum og fyrirsjáanlegum viðmiðum, að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði ekki slitnir frá aðstandendum sínum,“ segir í áliti fulltrúa Samfylkingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert