Æxli fjarlægt úr höfði Big Zaw

Stærsti maður Myanmar, Win Zaw Oo, hefur gengist undir skurðaðgerð á höfði þar sem fjarlægt var æxli úr höfði hans, en æxlið olli því að hann hefur vaxið óeðlilega mikið. Aðgerðin gekk mjög vel.

Win Zaw Oo, sem kallaður er „Big Zaw“ er 233 cm hár. Fólk víða um heim tók þátt í að safna peningum fyrir aðgerðinni, en hún fór fram í Singapore. Talin var hætta á að Oo myndi deyja fyrir aldur fram ef ekki tækist að fjarlægja æxlið úr höfði hans. Hann er 36 ára gamall.

„Mér líður vel núna,“ sagði Oo í samtali við blaðamenn. Hann sagði að sjónin væri að vísu aðeins skrítin, en það myndi lagast.

Oo er af fátæku fólki kominn. Hann hefur gengið berfættur mestalla ævi því að ekki er hægt að fá nægilega stóra skó í þorpinu þar sem hann býr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert