Svitalyktareyðirinn er verstur

Svitalyktareyðir getur valdið ofnæmi
Svitalyktareyðir getur valdið ofnæmi mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ein helsta ástæðan fyrir því að fólk fær ilmefnaofnæmi á lífsleiðinni er svitalyktareyðirinn sem það notar. Það borgar sig því að vanda vel valið á slíkum snyrtivörum. Þetta er niðurstaða nýrrar danskrar rannsóknar sem vísindamenn við ofnæmisdeild Gentofte sjúkrahússins hafa unnið.

Politiken greinir frá þessu.

Maria Vølund Heisterberg, læknir og doktorsnemi, vann rannsókina og segir hún í viðtali við Politiken að handarkrikinn sé mjög viðkvæmur fyrir allri ertingu þar sem húðin er svo þunn þar og hársekkirnir margir. Það þýði að ilmefnin fara auðveldar inn í húðina.

Á sama tíma er svæðið lokað þannig að ilmurinn nær ekki að dreifast. Eins ef þú rakar þig undir hönum verður húðin enn viðkvæmari og því aukin hætta á að fá ilmefnaofnæmi.

Af þeim 17.716 einstaklingum sem tóku þátt í rannsókninni reyndust 1.790 vera með ilmefnaofnæmi. Í flestum tilvikum var hægt að rekja ofnæmið til snyrtivörunotkunar. Í 25% tilvika var það svitalyktareyðirinn sem olli ofnæminu. En ilmkrem, hársápa og aðrar sápur fylgdu þar fast á eftir.

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert