Fylgjast grannt með súkkulaðinu

Verður súkkulaðimolinn aðeins draumur einn á næstu árum eða áratugum?
Verður súkkulaðimolinn aðeins draumur einn á næstu árum eða áratugum? AFP

Nýlega greindi mbl.is frá því að á næstum árum stefni í að kakóbaunir, lykilhráefni súkkulaðis, verði uppurnar vegna aukinnar eftirspurnar sem framleiðendur anna ekki. Eins og við mátti búast tóku margir þessum tíðindum illa, enda hefur súkkulaði verið afar vinsæl vara meðal landsmanna um árabil. Líflegar umrærður sköpuðust á veraldarvefnum og veltu margir vöngum yfir því hvernig lífið yrði án súkkulaðis.

Raunverulegt áhyggjuefni fyrir neytendur?

Tilefni fréttarinnar var það að sérfræðingar í kakóbaunaiðnaðinum vöruðu við þessu á ráðstefnu sem haldin var í London á dögunum. En er þetta raunverulegt áhyggjuefni og ástæða til að óttast súkkulaðiskort eftir einhver ár?

„Þetta eru ekki ný tíðindi, þetta var fyrirsjáanlegt fyrir nokkrum árum,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Síríusi. Hann segir súkkulaðiframleiðendur meðvitaða og fylgjast þeir grannt með stöðu mála.

„Eftirspurn hefur verið að aukast og framleiðslan hefur ekki náð að elta. Kakórækt er í samkeppni við annað, til að mynda banana og gúmmí, og keppa vörurnar um sama ræktarlandið,“ segir Kristján, en bóndinn velur hvað ræktað er hverju sinni.

Vandamálið vissulega til staðar

Kristján dregur þó síður en svo úr mögulegum alvarleika málsins. Vandamálið sé vissulega til staðar, en hann hafi þó ekki stórar áhyggjur af súkkulaðiskorti á komandi árum. „Það verða alltaf einhverjar lausnir,“ segir hann. Unnið hefur verið með kakóbaunabændum og þeim kennt að nýta jarðveginn betur. Þá hafa þeim verið kynntar leiðir til að fá meiri uppskeru.

Kristján segir þó fyrirsjáanlegt að verð á súkkulaði muni hækka í framtíðinni og þá sé hættan einnig sú að menn fari að drýgja vöruna með öðrum efnum, til að mynda feiti. Slíkt er þó ekki gert hjá fyrirtækinu.

Frétt mbl.is: Súkkulaðiskortur yfirvofandi í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert