Hætta á árekstri jarðar við loftstein

Loftsteinninn 2013 TV135 er um 400 metrar í þvermál.
Loftsteinninn 2013 TV135 er um 400 metrar í þvermál. mbl.is

Nýlega fór framhjá jörðinni einn hættulegasti loftsteinn sem um getur. Sá hinn sami mun snúa aftur árið 2032 og vilja úkraínskir vísindamenn meina að þá sé hætta á að steinninn skelli á jörðinni. NASA telur líkur á því mjög litlar.

Úkraínsku vísindamennirnir segja að steinninn sem fór fram hjá jörðinni í september sé einn sá hættulegasti sem fyrirfinnist. Hann muni koma aftur að jörðinni innan 20 ára. Þá sé hætta á að hann skelli á plánetuna okkar af krafti sem jafnist á við þúsundir atómsprengja.

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur þó reynt að draga úr orðum vísindamannanna. Hún segir hættuna á því að loftsteinninn lendi á jörðinni afar litla eða 1 á móti 63.000. Það séu því í raun 99,998% líkur á að hann fari framhjá, líkt og hann gerði í september.

„Við vitum ekki svo mikið um þennan loftstein eða þá braut sem hann er á. En það verður vel fylgst með honum,“ segir Sara Seager, prófessor við MIT í samtali við CNN.

Steinninn er kallaður 2013 TV135 og var í um 6,8 milljóna kílómetra fjarlægð er hann fór næst jörðinni í september. Það er í um 15 sinnum meiri fjarlægð en tunglið er að meðaltali frá plánetu okkar.

NASA segir að stærð steinsins sé ekki mikið áhyggjuefni en hann er talinn vera um 400 metrar í þvermál. Til samanburðar er talið að loftsteinninn sem skall á jörðinni fyrir um 65 milljónum ára og útrýmdi m.a. risaeðlunum hafi verið um einn kílómetri í þvermál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert