Concorde-þota komin heim

Einni fyrstu Condorde-þotunni sem smíðuð var í frönsku borginni Toulouse var á dögunum ekið inn í Aeroscopia-flugsafnið sem stendur til að opna í haust. Safnið er við flugvöllinn í Toulouse þar sem einnig má finna höfuðstöðvar evrópska flugvélaframleiðandans Airbus.

Concorde MSN1 var flugprófunarvél og var henni fyrst flogið 6. desember 1973. Allur hennar flugtími fór í prófanir og þróun Concorde-þotunnar eða þar til henni var flogið í síðasta skipti 19. apríl 1985. Henni hefur verið ætlað það hlutverk í framtíðinni að vera til sýnis í Aeroscopia-safninu og mun gestum gefast þess kostur að stíga um borð.

Concorde þótti algjört tækniundur, jafnvel álitin á meðal mestu tækniafrekanna á öldinni sem leið en hún var fyrsta og eina hljóðfráa farþegaþotan í heiminum. Aðeins tuttugu slíkar þotur voru smíðaðar, bæði í Frakklandi og Bretlandi, og voru sex þeirra flugprófunarvélar.

Frétt mbl.is: 45 ár frá fyrsta flugi Concorde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert