Borga reikninga með hendinni

Ekki fylgir sögunni hvort einhverjir hafi fengið (h)endurgreitt.
Ekki fylgir sögunni hvort einhverjir hafi fengið (h)endurgreitt. AFP

Íbúum í Lundi í Svíþjóð býðst nú nýstárleg aðferð við að greiða fyrir vörur og þjónustu í borginni. Í stað þess að nota reiðufé eða greiðslukort þá geta íbúarnir einfaldlega notað hendurnar.

Að sögn vísindamanna við Lundarháskóla er búið að setja upp sérstaka skanna fyrir hendur í 15 verslunum og veitingastöðum í Lundi. Ungur verkfræðinemi fékk hugmyndina að þessu er hann var að bíða í röð til að gera upp reikning fyrir tveimur árum. 

Yfir 1.600 hafa skráð sig til þátttöku í nýja greiðslukerfinu sem byggir á því að æðar í höndum fólk eru skannaðar. Hönnuðurinn segir að það sé bæði hraðvirkara og öruggara heldur en hefðbundin kerfi. 

„Æðarnar í sérhverri manneskju eru algjörlega einstakar og þar af leiðandi er ekki hægt að stunda fjársvik með þessu kerfi,“ segir vísindamaðurinn Fredrik Leifland.

„Til að greiðsla fari í gegn þarftu ávallt að láta skanna á þér höndina.“

Æðaskannar eru ekki nýir af nálinni en hingað til hefur búnaðurinn ekki verið notaður til að afgreiða greiðslur.

„Við urðum sjálfir að tengja alla leikendur, sem var fremur flókið; stöðvar til að skanna æðarnar, bankana, verslanirnar og viðskiptavinina,“ segir Leifland ennfremur

Til stendur að útvíkka starfsemina og hafa önnur fyrirtæki víða um heim farin að huga að þessari þjónustu. 

Þeir sem vilja vera þátttakendur í þessu greiðslukerfið þurfa að fara í verslun þar sem slíkur skanni er til staðar. Þar eru lófi þeirra skannaðar í þrígang og þá þurfa þeir að gefa upp kennitölu og símanúmer. 

Í framhaldinu er smáskilaboð sent í farsíma viðkomandi þar sem er að finna tengil til að virkja þjónustuna, en það er gert í gegnum vefsíðu á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert