Fyrsti Marsfarinn snúi ekki aftur

Buzz Aldrin á tunglinu
Buzz Aldrin á tunglinu

Í tilefni þess að þann 20 júlí eru 45 ár liðin frá því að geimfarar úr Appollo 11 geimfarinu lentu á tunglinu, fyrstir manna, sat tunglfarinn og verkfræðingurinn Buzz Aldrin fyrir svörum á vefsíðunni Reddit.com í gær. Aldrin var annar maðurinn til þess að ganga á tunglinu, á eftir Neil Armstrong.

Aldrin lýsir því vel hvaða tilfinningar hann beri til tunglsins, nú 45 árum eftir að hann heimsótti það. „Stórfenglegur tómleiki (e. Magnificent desolation). Mikilfengleiki mannkynsins og tæknilegar nýjungar okkar leiddu til þess að við þróuðum með okkur hugrekki og tækni til þess að vilja skoða heiminn. Að komast til tunglsins er glæsilegur vitnisburður um eðli mannkynsins. En tunglinu fylgir einnig tómleiki. Ég hef aldrei séð þann stað á jörðinni sem er jafntómlegur og sá staður sem ég heimsótti fyrir 45 árum síðan,“ segir Aldrin. 

„Sumir telja það sjálfsmorðsleiðangur - ekki ég“

Þó nokkrum spurningum var varpað til hans um framtíð geimferða, og þá sérstaklega heimsóknir til annarra hnatta. „Ég er þeirrar skoðunar að fyrstu mennirnir sem lenda á plánetunni Mars eiga ekki að snúa aftur. Þeir eiga að hefja uppbyggingu á nýlendu sem er ætlað að vara til frambúðar. Nýlenda sem ekki er hægt að heimsækja og skoða, heldur þar sem þú verður að setjast að. Sumir líta á það sem sjálfsmorðsleiðangur, en ekki ég. Ef við hefjum uppbyggingu á plánetunni frá upphafi, getum við á 6-7 árum byggt upp rannsóknarstofur og íbúabyggð.“

Að mati Aldrins er það ekki rétta leiðin að fara, að einkafyrirtæki bjóði upp á ferðalög til og frá Mars. „Það er alltof dýrt og það tefur fyrir því óumflýjanlega verkefni að stofna nýlendu á annarri plánetu. Íbúabyggð á Mars á ekki að koma frá einkaframtaki, heldur því besta frá öllum heimshornum. Samstarfi á milli þjóða. Sá sem leiðir slíkt verkefni mun skrifa nafn sitt í sögubækurnar sem sá sem flutti mannkynið til annarra plánetna í sólkerfinu.“

Reyndi alltaf að svala forvitninni

Aðspurður hvert sé helsta afrek hans fyrir utan geimferðirnar, þá segir Aldrin það vera að hann hafi alltaf ögrað sjálfum sér, og leitað sér þekkingar og skilnings á heiminum í kringum sig. „Það kemur sumum á óvart að auk þess að fara til tunglsins þá hef ég farið á Norðurpólinn og svo hef ég farið í kafbát og skoðað flakið af Titanic, sem liggur á hafsbotni. Ég fór í litlum, gulum kafbát og það tók okkur einn og hálfan tíma bara að komast niður að skipinu. Þegar við komum niður á hafsbotninn þá var skyggnið lélegt. Við sáum bara skipið en ekki hafsbotninn. Í okkar augum leit það því út fyrir að skipið,þetta gríðarstóra, ryðgaða járnskip sem leit helst út fyrir að vera stór piparkaka, væri enn fljótandi um á sjónum.“

Að vera númer tvö...

Aldrin glímdi við þunglyndi og alkóhólisma eftir að Apollo 11 kom aftur til jarðar. Sögusagnir hafa lengi flakkað um að samband hans við Armstrong hafi á tímabili verið stirt. Á Reddit var hann spurður hvernig það var ákveðið hvor þeirra yrði fyrstur til að stíga fæti á tunglið. Aldrin var yngri en Armstrong, sem var í forystuhlutverki leiðangursins. „Ég tjáði þeim skoðun mína að það væri eðlilegast að ef einhver okkar myndi ganga á tunglinu, þá yrði það einhver af óreyndari mönnunum, á meðan leiðtogi leiðangursins myndi bíða við stjórntækin. Það var hópur innan NASA sem vildi að ég yrði fyrstur en að lokum var ákvörðunin tekin um að Armstrong yrði á undan mér. Mörgum fannst það eðlilegast að þar sem hann var reyndastur af okkur, og hafði tekið þátt í öðrum leiðöngrum áður, að hann fengi að verða sá fyrsti til að stíga fæti á tunglið. Ég hlýddi þeirri ákvörðun, enda var hún tekin af mjög hátt settum yfirmönnum okkar Armstrongs, ekki okkur sjálfum.“

Sandra Bullock á skilin óskarsverðlaun

Notendur Reddit.com höfðu einnig nokkrar léttar spurningar fyrir Aldrin. Var hann meðal annars spurður hver sé uppáhalds geimmyndin hans. Geta áhugamenn um myndina Gravity tekið gleði sína, því Aldrin ber þeirri mynd vel söguna.  „Þegar ég gekk út af myndinni sagði ég við sjálfan mig: Sandra Bullock á skilin óskarsverðlaun.“

Þá var hann spurður út í viðurnefnið hans, Buzz. Sagði hann það vera til komið vegna þess að litla systir hans gat aldrei borið fram orðið „Brother“ (í. bróðir). Í stað þess kallaði hún hann Buzzard, og þar af kemur nafnið Buzz. 

Buzz Aldrin hér á sýningu myndarinnar Deconstructing Gravity fyrr á …
Buzz Aldrin hér á sýningu myndarinnar Deconstructing Gravity fyrr á þessu ári. Mynd/AFP
Áhöfnin á Apollo 11, Neil Armstrong, Michael Collins og Edward …
Áhöfnin á Apollo 11, Neil Armstrong, Michael Collins og Edward "Buzz Aldrin. Mynd/HO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert