Heimilistækin veikburða gagnvart þrjótum

HP telur að 26 milljarðar heimilistækja tengist internetinu árið 2020.
HP telur að 26 milljarðar heimilistækja tengist internetinu árið 2020. AFP

Þau heimilistæki sem tengjast internetinu, hvort sem um er að ræða sjónvarp, ísskáp, hljómtæki eða annað, eiga í mikilli hættu á að vera fyrir barðinu á tölvuþrjótum. Þetta kemur fram í rannsókn fyrirtækisins Fortify sem gerð var fyrir tölvurisann Hewlett-Packard.

Í rannsókninni kemur fram að yfir 70% þeirra tækja sem notuð eru á heimilinu og geta tengst netinu hafi mikla öryggisgalla, til dæmis ófullnægjandi lykilorðahugbúnað og óvandaða öryggisþætti.

Fortify rannsakaði vinsælustu tækin sem geta tengst internetinu og fann að meðaltali 25 galla á hverju tæki. Þetta voru til dæmis sjónvörp, myndavélar, hitamælar, lásar, vigtir og bílskúrshurðaopnarar. Í gegnum átta af hverjum tíu tækjum var hægt að brjótast inn og stela upplýsingum um eigandann, svo sem kreditkortaupplýsingum eða netfangi.

Þá kom einnig fram að flest tæki af þessu tagi væru án lykilorða, og ef þau eru til staðar á annað borð voru þau mjög einföld, til dæmis „1234“.

Í yfirlýsingu Hewlett-Packard segir að eftirspurn aukist eftir tækjum sem þessum en þrátt fyrir það virðast öryggiskerfin ekki vera fullnægjandi. Þeir spá því að árið 2020 verði yfir 26 milljarðar tækja og tóla tengd internetinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert