Fyrstu norðurljósin í gær

Norðurljós á lofti.
Norðurljós á lofti. mbl.is/Golli

Þegar rökkva tekur á nýjan leik í ágúst fyllast margir angurværð og söknuði eftir bjartasta tímanum. Miðnætursólin lætur ekki sjá sig aftur fyrr en að ári en í millitíðinni prýða önnur náttúrundur næturhimininn, nefnilega norðurljósin, sem gerðu vart við sig í gærkvöldi.

Norðurljósamiðstöðin í Reykjavík birti þessa mynd á Instagram-síðu sinni í dag en hún er tekin við Hafravatn í gærkvöldi. Margir ferðast langar leiðir á norðurhvel til að verða vitni að því sjónarspilin sem norðurljósin geta verið og koma ferðamenn m.a. í auknum mæli til Íslands í þessu skini.

Þótt Íslendingar séu vanir þeim ættu norðurljósin alltaf að gleðja augað, ekki síst þegar þau gera fyrst vart við sig eftir að hafa vikið fyrir birtu sólar yfir sumarið. Rétt er þó að halda því til haga að virkni norðurljósa er algerlega óháð árstíðum og jarðneskri veðráttu, eins og Stjörnufræðivefurinn útskýrir skilmerkilega. Við sjáum ekki norðurljósin einfaldlega ekki á sumrin vegna birtunnar frá sólinni.

Í nótt er hugsanlegt að sjá norðurljós, að því gefnu að það verði heiðskírt, ef marka má geimveðurspádeild bandarísku rannsóknarmiðstöðvarinnar National Oceanic Atmospheric Administration (NOAA) því samkvæmt henni varð s.k. kórónuskvetta, þ.e. útkast rafgass úr kórónu sólar, sem stefnir í átt að jörðu og gæti myndað minniháttar segulstorm, með tilheyrandi norðurjósasýningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert