Heimsækir ISS fyrst rússneskra kvenna

Rússneskt geimfar af gerðinni Soyuz hélt út í geim frá borginni Baikonur í Kazakstan í gær. Í geimfarinu er einn bandarískur geimfari og tveir rússneskir, þar á meðal fyrsta rússneska konan til að fara út í geim í 17 ár. Konan, sem heitir Elena Serova og er 38 ára gömul, er jafnframt fyrsti kvenkyns geimfarinn frá Rússlandi til að heimsækja alþjóðlegu geimstöðina (ISS).

Breska ríkisútvarpið greindi frá því í gær að Serova hefði á fjölmiðlafundi verið spurð hvernig hún ætlaði að þvo hárið á sér úti í geimnum. Hún var fljót að svara blaðamanni og spurði á móti: „Ert þú ekkert áhugasamur um hárið á samstarfsmönnum mínum?“

Einnig var Serova spurð um það hvernig 11 ára dóttir hennar myndi takast á við sex mánaða fjarveruna. Serova ítrekaði þá að þetta væri vinna hennar.

„Ég verð fyrsta rússneska konan til að heimsækja ISS. Ég finn fyrir mikilli ábyrgð gagnvart fólkinu sem kenndi okkur og þjálfaði og vil segja þeim að við munum ekki bregðast þeim,“ sagði hún á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert