Netflix framleiðir kvikmynd

Netflix
Netflix AFP

Efnisveitan Netflix mun gefa út sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd á næsta ári, en fyrirtækið gerði nýlega samning við framleiðslufyrirtækið Weinstein Company.

Kvikmyndin verður framhald á meistaraverki Ang Lee, Crouching Tiger, Hidden Dragon, sem kom út árið 2000. Framhaldið verður sýnd á Netflix og í Imax kvikmyndahúsum í ágúst. BBC segir frá þessu í dag.

Rúmlega 50 milljón manns nota Netflix í meira en fjörtíu löndum. Netflix framleiðir nú sína eigin sjónvarpsþætti og má þar helst nefna House of Cards sem hafa slegið í gegn.

„Upplifunin sem verður þegar fólk fer í bíó er að þróast hratt og örugglega og Netflix er fremst í flokki þegar það kemur að þeirri þróun,“ sagði Harvey Weinstein, formaður Weinstein samsteypunnar.

„Við erum öll gífurlega spennt að halda áfram okkar frábæra sambandi við Netflix og veita aðdáendum síðasta kaflann í sögu Crouching Tiger, Hidden Dragon.“

Framhald myndarinnar mun heita Crouching Tiger, Hidden Dragon: The Green Legend og mun skarta fyrrum Bond-stúlkunni Michelle Yeoh í aðalhlutverki.

Yeoh fór með aðalhlutverkið í fyrstu myndinni sem bardagakonan Yu Shu-Lien ásamt kínverska leikaranum Donnie Yen sem fór með hlutverk persónunnar Silent Wolf.

Ang Lee mun hins vegar ekki leikstýra myndinni heldur mun kínverski leikstjórinn Yuen Wo-Ping vera við stjórnvöldin. Tökur á myndinni eru hafnar, en þær fara fram í Nýja Sjálandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert