Birtu rannsókn Simpsons persóna

Maggie Simpson er bæði full ung og full teiknuð til …
Maggie Simpson er bæði full ung og full teiknuð til að hafa framkvæmt vísindalega rannsókn.

Vísindaleg rannsókn eftir Maggie Simpson, Ednu Krabappel og Kim Jong Fun hefur verið samþykkt af tveimur fræðitímaritum.

Rannsóknin ber titilinn „Fuzzy, Homogeneus Conficurations“ upp á ensku og mætti þýða sem „Loðnar, einsleitar samskipanir“. Mörgum finnst titillinn eflaust hljóma eins og rannsóknin sé einhverskonar bull og það er einmitt raunin. Maggie og og Edna eru persónur í Simpsons þáttunum og Kim Jong Fun er vinsæl Tumblr-síða og afbökun á nafni einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong Un.

Verkfræðingurinn Alex Smolyanitsky skrifaði og sendi „rannsóknina“ til að koma upp um óvísindalega starfshætti tveggja fræðitímarita – The Journal of Computational Intelligence and Electronic Systems og Aperito Journal of NanoScience Technology. Að sögn vox.com er það síðarnefnda mikill aðdáandi comic-sans letursins og ætti það í sjálfu sér að segja allt sem segja þarf um gæði ritsins.

Undanfarin ár hefur færst í aukana að „fræðitímarit“ sem þessi bjóðist til að gefa út verk fræðimanna, óháð efni verkanna og innihaldi, gegn greiðslu. Verkin eru sjaldnast einu sinni lesin yfir af öðrum fræðimönnum eins og tíðkast hjá virtum fræðiritum. Því gat Smolyanitsky sent inn algjörlega samhengislausan bull texta, eftir teiknimyndapersónur frá Belford Háskóla sem er að sjálfsögðu ekki til.

„Fyrst og fremst vildi ég láta mér detta eitthvað í hug sem er augljóslega uppspunnið. Það eina sem ég sé eftir er að seinni höfundurinn sé ekki Ralph Wiggum.“

Bæði fræðitímaritin hafa samþykkt rannsóknina til birtingar og annað hefur þegar birt hana og sent  Smolyanitsky rukkun upp á 459 Bandaríkjadali.

Fjallað er ítarlegar um fleiri gervi-fræðitímarit á síðu Vox.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert