Tunglið virkara en talið var

Unglegt hraun við Maskelyne-gíginn á tunglinu.
Unglegt hraun við Maskelyne-gíginn á tunglinu. Af Stjörnufræðivefnum

Menn hafa lengi talið að tunglið væri kulnaður hnöttur og eldvirkni þar hafi fjarað út fyrir um milljarði ára. Geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hefur hins vegar fundið tugi unglegra hrauna á nærhlið tunglsins sem benda til þess að eldgos hafi orðið á tunglinu innan síðustu 100 milljóna ára.

Nærhlið tunglsins frá jörðu séð er þakin dökkum sléttum úr basalti sem er eldfjallagrjót eins og það sem Ísland er myndað úr. Þessar sléttur hafa verið nefndar höf. Eldgosin sem mynduðu þessar hraunbreiður náðu hámarki fyrir um þremur milljörðum ára. Talið er að þau hafi fjarað út fyrir um milljarði ára. Flestir vísindamenn töldu því að tunglið væri kulnaður hnöttur, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.

Þegar NASA sendi geimfar sitt Lunar Reconnaissance Orbiter (LRO) á braut um tunglið árið 2009 var ákveðið að leita að merkjum um nýleg eldgos, meðal annars vegna þess sem virtust yngri jarðmyndanir sem fundist höfðu í Apollo-leiðöngrunum. Sú leit leiddi í ljós sjötíu jarðmyndanir með skarpar brúnir og sárafáa gíga sem eru stærri en tuttugu metrar í þvermál. Það bendir til þess að þær hafi myndast á síðustu 100 milljón árum og jafnvel innan síðustu 50 milljóna ára sem er örskömm stund á jarðsögulegan mælikvarða.

Þetta bendir til þess að tunglið sé líklega ennþá eldvirkt þótt ólíklegt sé að þeir sem nú lifa verði vitni að eldgosum þar á sinni ævi. Það þýddi þá að tunglið hafi ekki kólnað eins hratt og talið var eftir að það myndaðist fyrir um 4,5 milljörðum ára.

Frétt á Stjörnufræðivefnum um nýlega eldvirkni á tunglinu

Grein á Stjörnufræðivefnum um Lunar Reconnaissance Orbiter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka