Fullyrðingar hómópata villandi

Hómópati blandar remedíu. Virku efni þeirra eru leyst upp í …
Hómópati blandar remedíu. Virku efni þeirra eru leyst upp í vatni. Yfirleitt er lausnin svo útþynnt að ekkert er eftir af efninu í henni. Í sumum tilfellum þyrfti neytandi remedíunnar að innbyrða meira af henni en sem nemur öllum atómunum í hinum sjáanlega alheimi til að fá eina sameind af efninu. AFP

Dómstóll í Ástralíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að auglýsingar hómópata um að meðferð þeirra væri raunverulegur valkostur við bóluefni gegn kíghósta hefðu verið misvísandi og blekkjandi. Í auglýsingunni var því einnig haldið fram að bóluefnið væri óáreiðanlegt og gagnslaust.

Samkeppnis- og neytendamálastofnun Ástralíu höfðaði mál gegn fyrirtækinu Homeopathy Plus árið 2013 vegna auglýsinga þess. Birti fyrirtækið þrjár greinar þar sem gagn bólusetningar gegn kíghósta var dregið í efa. Stofnanir sem fylgjast með auglýsingum fyrir heilsutengdar vörur fóru fram á að fullyrðingarnar sem settar voru fram í auglýsingunum væru dregnar til baka en fyrirtækið hafnaði því.

Málið fór fyrir dóm og var niðurstaðan sú að bóluefnið væri árangursrík leið til að vernda umtalsverðan meirihluta fólks fyrir kíghósta. Í dómnum kom einnig fram að fullyrðingar sem fyrirtækið setti fram um að remedíur hómópata gætu gagnast til að koma í veg fyrir kíghóstasmit væru villandi eða blekkjandi.

Ákvörðun um refsingu eða lögbann verður tekin í febrúar. Nokkuð er síðan greinarnar sem um ræðir voru fjarlægðar af vefsíðu Homeopathy Plus. Nú eru hefðbundnar bólusetningar hins vegar gagnrýndar með almennum orðum og því haldið fram að hómópatía geti gagnast til að koma í veg fyrir malaríu, beinbrunasótt, japanska heilabólgu, mjógyrmasýki og heilasótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert