Hlýnun stuðli að snjómetum

Íbúi í Boston mokar snjó. Met hafa fallið undanfarnar vikur …
Íbúi í Boston mokar snjó. Met hafa fallið undanfarnar vikur í snjókomu. Hnattræn hlýnun gæti valdið því að snjóþyngsli fari vaxandi. AFP

Met hafa verið slegin í snjókomu á Nýja-Englandi á austurströnd Bandaríkjanna undanfarnar vikur. Líklegt er talið að hlýnandi loftslag jarðarinnar af völdum manna eigi þátt í því hversu mikil ofankoman hefur verið á svæðinu en hún hefur farið vaxandi undanfarna áratugi.

Samkvæmt tölum veðurstofu Bandaríkjanna hafa met fallið yfir mestu snjókomu á 14, 20 og 30 daga tímabili í Boston og Worcester undanfarnar vikur. Stefnir í að þetta verði snjóþyngsti vetur þar frá upphafi.

Fannfergi er líklega ekki eitthvað sem margir tengja við hlýnandi veðurfar en þó virðist hnattræn hlýnun eiga þátt í því hversu snjóþyngslin hafa verið mikil undanfarið, eins og kemur fram í grein The Washington Post.

Þar er meðal annars bent á að hitastig sjávar undan ströndum Nýja-Englands hafi verið óvanalega hátt en eins og vitað er tengist hafið og veðurfar órjúfanlegum böndum. Haft er eftir loftslagsfræðingnum Michael Mann við Penn-ríkisháskólann að sums staðar sé sjórinn allt að 11,5°C hlýrri en venjulega.

„Það eru bein tengsl á milli yfirborðshita sjávar og rakastigs lofts. Það þýðir að þetta óveður nærist á þessum hlýja sjó, myndar mikið magn af snjó þegar vindsveipir þrýsta rakanum úr loftinu, kæla hann og skila honum sem snjó upp á land,“ segir Mann.

Rignir frekar við vetrarbyrjun og lok

Hlýrri sjór þýðir líka að hitabreytingin verður þeim mun meiri þegar óveðrin ná landi. Það gerir þau öflugri. Væri hitastigið lægra kæmi minna niður af snjó.

„Hlýrri sjór undan ströndinni hækkar hitastigið á veturna og þátt í meiri snjókomu. Það er á þennan hátt sem hnattræn hlýnun leikur hlutverk [í snjókomunni],“ segir Kevin Trenberth, loftslagssérfræðingur hjá loftlagsrannsóknarstöð Bandaríkjanna NCAR.

Hnattræn hlýnun er þó vissulega talin hafa önnur áhrif á veðurfar að vetri til. Trenberth segir að vegna hlýrri aðstæðna sé úrkoma við upphaf og lok vetrar líklegri til að falla sem rigning en snjór. Þegar líður á veturinn og hitastigið lækkar geti hærri meðalhiti leitt til þess að snjóþyngsli verði meiri eins og áður var lýst.

Aukin snjókoma er jafnframt sögð í samræmi við þá þróun sem verið hefur á Nýja-Englandi síðustu áratugi. Þannig sýna gögn bandarískra yfirvalda að 71% aukning varð í því sem skilgreint er sem mikil úrkoma frá 1958 til 2012. Sama þróun hefur átt sér stað víðsvegar annars staðar um Bandaríkin.

Grein The Washington Post um áhrif loftslagsbreytinga á snjókomu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert