Föli blái punkturinn í 25 ár

Jörðin er aðeins 0,12 dílar í myndinni sem Voyager tók …
Jörðin er aðeins 0,12 dílar í myndinni sem Voyager tók á valentínusardaginn árið 1990. Henni bregður fyrir í miðjum geisla brotins ljóss hægra megin á myndinni sem var afurð þess að myndin var tekin svo nærri sólinni. Geimfarið var engu að síður í tæplega sex milljarða kílómetra fjarlægð frá henni. NASA/JPL

Aldarfjórðungur er nú liðinn frá því að könnunarfarið Voyager tók frægar „fjölskyldumyndir“ sínar af sólkerfinu okkar. Á henni sést jörðin aðeins sem fölur blár punktur í víðáttu geimsins. Myndirnar voru þær síðustu sem geimfarið sendi til jarðar en ekkert manngert far hefur ferðast lengra frá jörðinni.

Myndirnar sem Voyager 1 tók á leið sinni út úr sólkerfinu eftir að hafa heimsótt Neptúnus 14. febrúar árið 1990 voru ekki á upphaflegri áætlun þess. Það var hins vegar stjörnufræðingurinn heimsfrægi Carl Sagan sem krafðist þess að myndavélum geimfarsins yrði snúið í átt að jörðinni áður en slökkt yrði á þeim. Á myndunum sjást Neptúnus, Úranus, Satúrnus, Júpíter, jörðin og Venus. Mars var hins vegar ekki nógu bjartur á þessum tíma, Merkúr of nálægt sólinni og Plútó af dimmur til að þessar reikistjörnur gætu verið með á myndunum.

Voyager var í um 40 stjarnfræðieininga, tæplega sex milljarða kílómetra, fjarlægð frá sólinni þegar myndin var tekin og á henni virðist jörðin ekki mikið meira en fölur og bláleitur punktur í miðjum ljósgeisla sem myndavélin nam. Nú er farið um þrisvar sinnum lengra frá sólinni en þegar myndirnar voru teknar. Það hefur engu að síður enn regluleg samskipti við vísindamenn á jörðu niðri, líkt og systurfarið Voyager 2.

Carl Sagan skrifaði bók sem dró titil sinn af myndinni góðu, „Föli blái punkturinn“ (e. The Pale Blue Dot). Þar skrifaði hann meðal annars um myndina af heimkynnum okkar:

„Á henni hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkru sinni heyrt um, hver einasta manneskja sem nokkru sinni hefur lifað eytt ævi sinni. Það er kannski ekkert sem sýnir betur fram á flónsku drambsemi mannanna en þessi fjarlæga mynd af agnarsmárri veröld okkar.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Sagan talar um föla bláa punktinn, einu heimkynnin sem mannkynið hefur þekkt.

Grein á vef NASA um aldarfjórðungsafmæli föla bláa hnattarins

Bandaríski stjörnufræðingurinn Carl Sagan vann við Voyager 1-leiðangurinn.
Bandaríski stjörnufræðingurinn Carl Sagan vann við Voyager 1-leiðangurinn.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert