Tölvuþrjótar taka gögn í gíslingu

Gagnagísla­taka hefur færst gríðarlega í vöxt á undanförnum misserum og tölvuþrjótar herja í sífellt ríkari mæli á snjallsíma. Ná þeir yfirtökunum þegar grunlausir símeigendur sækja sér það sem þeir halda að séu forrit. Með forritunum loka þrjótarnir símunum og neita að opna nema lausnargjald sé greitt.

Stutt er síðan Netör­ygg­is­sveit Íslands, CERT-ÍS, varaði við slíku en í tilkynningu frá henni sagði að eina leiðin til að verj­ast þessu sé að hugsa sig ávallt vel um áður en smellt er á hlekki í tölvu­pósti og fá jafn­vel staðfest­ingu frá viðkom­andi send­anda að hann hafi í raun sent viðkom­andi skeyti. Hið sama á við um mik­il­vægi þess að sækja hug­búnað aðeins frá aðilum sem þú treyst­ir.

Frétt mbl.is: Gagnagíslataka færist í aukanna

Vandamálið er alþjóðlegt og í meðfylgjandi myndskeiði ræðir AFP fréttaveitan við Valerie Goss sem er fórnarlamb tölvuþrjóta. Þeim tókst að læsa tölvu hennar og hótuðu að eyða öllum gögnum ef þeir fengju ekki jafnvirði fimm hundruð Bandaríkjadala í rafmyntinni Bitcoin. Fimm hundruð dalir eru um 70 þúsund íslenskra króna.

Goss neitaði að greiða og segja tölvusérfræðingar að það sé rétta leiðin. „Fjórðungur notenda fá ekki gögnin sín til baka þrátt fyrir að inna af hendi greiðslu, þannig að þetta er rétta leiðin að fara,“ segir tölvusérfræðingurinn Marcin Kleczynski. En það þýðir einnig að Goss fær ekki gögn sín til baka. Hún segist hafa lært af þessu að best sé að taka afrit af öllum gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert