Heiðraður fyrir vísindamiðlun

Neil deGrasse Tyson.
Neil deGrasse Tyson. Wikipedia

Stjarneðlisfræðingurinn Neil deGrasse Tyson mun hljóta ein virtustu verðlaun bandarísku vísindaakademíunnar í næsta mánuði. Hann verður fyrsti maðurinn til að hljóta verðlaunin fyrir vísindamiðlun frá því að Carl Sagan hlaut þau árið 1994. Tyson stjórnaði m.a. endurgerð á þáttunum Sagan um alheiminn.

DeGrasse Tyson, sem er forstöðumaður Hayden-stjörnuversins, fær verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í næsta mánuði en almannaheillaorðan var fyrst veitt árið 1914. Henni er ætlað að heiðra þá sem vinna að því að auka veg vísindanna til heilla mannkynsins.

Þekktastur er deGrasse fyrir þættina um alheiminn, „Cosmos“, sem sýndir voru um allan heim í fyrra. Þeir voru endurgerð á frægri samnefndri þáttaröð sem Sagan gerði við lok 8. áratugar síðustu aldar og vakti áhuga heillar kynslóðar á vísindum.

„Neil deGrasse Tyson hefur gert milljónir manna um allan heim spenntar fyrir vísindunum í gegnum nær öll form fjölmiðla sem völ er á. Á endanum veltur velgengni vísindanna á skilningi almennings á mikilvægi þeirra og gildi. Neil kemur því á meistaralegan hátt til skila hvers vegna vísindin skipta máli, ekki bara fyrir örfáa heldur fyrir okkur öll,“ segir Susan Wessler, formaður dómnefndarinnar, í tilkynningu frá bandarísku vísindaakademíunni um útnefninguna.

Hér fyrir neðan má svo sjá stiklu úr Cosmos-þáttaröðinni.

Frétt The Washington Post af heiðursverðlaunum Neils deGrasse Tysons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert