Stelpum gengur betur en strákum

EPA

Unglingspiltum gengur verr í skóla en stúlkum en samt sem áður eru þeir líklegri til þess að nema vísindi og stærðfræði í háskóla, segir í skýrslu sem OECD birti í dag.

Í skýrslunni kemur fram að fimmtán ára gamlir piltar eru líklegri til þess en stúlkur á sama aldri að fá lagar einkunnir. Þeir eyða einni klukkustund skemur en stúlkur í heimanám, segir í skýrslunni sem byggir á rannsókn sem gerð var í 65 löndum, þar á meðal Íslandi (PISA 2012). 

Utan skóla eyða piltar mun lengri tíma en stelpur í tölvuleiki og að sama skapi lesa stelpur mun meira sér til ánægju en strákar. Það á einkum við um flókinn skáldskap, segir í frétt AFP.

Aðspurð um hvað þeim finnst um skólann þá eru átta prósent meiri líkur á því að strákur segi skólann tímasóun en að stelpa svari á þann hátt. En þrátt fyrir þetta þá standa strákar sig betur í stærðfræði öllum löndunum 65 sem tóku þátt. 

Hræddari við stærðfræðina en strákar

Samkvæmt skýrslu OECD þá er það almennt þannig að stelpur eru með minna sjálfstraust en strákar þegar kemur að því að meta eigin hæfileika við að leysa stærðfræðiþrautir. Eins eru stelpur miklu líklegri til þess að vera hræddar við stærðfræði en strákar.

Í samræmi við það þá telja mjög fáar stelpur, innan við fimm prósent, líklegt að þær muni stefna á frama á sviði tölvunar- eða verkfræði. Samkvæmt skýrslu OECD eiga öll löndin það sammerkt að strákar stefna frekar í tölvunar- eða verkfræði en stelpur á sama aldri. 

Skýrsla OECD er unnin úr gögnum sem var safnað í PISA rannsókninni árið 2012 þar sem yfir 510 þúsund fimmtán ára ungmenni svöruðu spurningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert