Bretar hefja bólusetningar gegn heilahimnubólgu B

AFP

Breska ríkisstjórnin hefur samþykkt fjárveitingar til þess að hefja bólusetningu gegn heilahimnubólgu B. Á síðasta ári mæltu heilbrigðisyfirvöld með því að hafist yrði handa við bólusetningar og nú ári síðar hafa náðst samningar við framleiðanda bóluefnisins. 

Heilahimnubólga B orsakast af bakteríusýkingu. Sýkingin getur náð inn í heilahimnurnar og leitt til dauða. Dánartíðni þeirra sem smitast af sjúkdómnum er nokkuð há eða um 1/10. Að sögn Haraldar Briem, sóttvarnarlæknis, er bólusett gegn heilahimnubólgu C á Íslandi og skoðað verður í framhaldinu hvort ástæða þykir til að feta í fótspor Breta og bólusetja einnig gegn B.

„Heilahimnubólga B er sýking sem hefur gengið hér á árum áður og valdið heilmiklum skaða. Bólusetning gegn heilahimnubólgu C hefur borið mikinn árangur. Það hefur ekki borið mikið á B-partinum undanfarin 10-20 ár. Menn höfðu áhyggjur af því að sú sýking myndi vaxa fram í kjölfar þess að bólusett var gegn C en það hefur ekki gerst. Við munum nú í framhaldinu skoða hvort ástæða þykir að bólusetja gegn B,“ segir Haraldur.

„Bóluefnið gegn B hefur verið erfitt í framleiðslu. Við höfum vitað af því að það er að koma á markað nothæft efni á markaðinn.“

Þegar ákvörðun er tekin um nýtt bóluefni verður efnið fyrst að vera samþykkt af Lyfjastofnun og viðeigandi eftirlitsaðilum. „Um þessar mundir er lítið um þennan sjúkdóm en hann getur komið í bylgjum og við verðum að fylgjast vel með honum. Síðan verða að koma til fjárveitingar og þetta verður allt skoðað í því ljósi,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.

Haraldur Briem sóttvarnalæknir.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert