739 tennur merktar „baunir“

Tollayfirvöld í Bangkok gerðu 739 skögultennur upptækar um helgina.
Tollayfirvöld í Bangkok gerðu 739 skögultennur upptækar um helgina. AFP

Yfirvöld í Bangkok hafa gerð upptæk 4 tonn af fílabeini, en um er að ræða mesta magn fílabeins sem lögregla í Taílandi hefur lagt hendur á í einni aðgerð. Talið er að verðmæti varningsins nemi um 6 milljónum Bandaríkjadala.

Um var að ræða 739 skögultennur sem komið hafði verið fyrir í umbúðum sem voru sagðar innihalda baunir. Sendingin kom til landsins 18. apríl sl., en hún var á leið frá Austur-Kongó til Laos.

Yfirvöld telja líklegt að fílabeinið hefði verið selt frá Laos til Kína, Víetnam eða aftur til Taílands, hefði það náð á áfangastað. Í þessum löndum eru skrautmunir úr fílabeini seldir dýru verði, þrátt fyrir að óttast sé að eftirspurn eftir efninu sé orsök þess að fílum fer snarfækkandi.

Í Taílandi er löglegt að selja skráð fílabein af tömdum taílenskum fílum, en sérfræðingar segja að lögin geri glæpasamtökum kleift að „þvo“ skögultennur af drepnum fílum með því að láta þær fara um landið.

Stofnunin sem hefur eftirlit með því að ríki fari að Washingtonsáttmálanum um alþjóðleg viðskipti með villt dýr og plöntur (CITES), hefur gefið Taílandi frest fram í ágúst til að koma hömlum á viðskipti með fílabein innan landamæra sinna.

Hún hefur hótað alþjóðlegu banni á viðskipti ríkisins með villt dýr og plöntur, en orkídeur og fágætur viður eru mikilvægar útflutningsvörur í Taílandi.

Verndunarsinnar hafa varað við því að Afríkufíllinn verði útdauður innan nokkurra áratuga, með þessu áframhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert