Yfir helmings brottfall úr meðferð

AFP

Yfir helmings brottfall er úr meðferðum við átröskunum hér á landi sem er  svipað og í öðrum rannsóknum en eftirfylgdartími var lengri og sjúklingar með lystarstol héldust betur í meðferð en aðrir sjúklingar með átröskun, öfugt við það sem hefur sést í öðrum vestrænum löndum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn sem Guðrún Mist Gunnarsdóttir, Sigurður Páll Pálsson og Guðlaug Þorsteinsdóttir hafa unnið og fjallað er um í Læknablaðinu.

Skoðaðar voru sjúkraskrár sjúklinga sem höfðu fengið tilvísun í meðferð hjá átröskunarteymi Landspítalans og verið greind með lystarstol, lotugræðgi og átröskun.

Tilvísanir voru 260, 7% mættu ekki í greiningarviðtal og endanlegt úrtak var 182. Brottfall úr meðferð var skilgreint sem ótímabær stöðvun meðferðar án formlegrar útskriftar meðferðaraðila sem mat bata og átröskunarhegðun.

Úrtakið skiptist í 176 konur og 6 karla, meðalaldur 26,3 ár. Lotugræðgi greindist hjá 52,7% sjúklinga, ÁENS hjá 36,8% og lystarstol hjá 10,4%. Aðra samhliða geðröskun höfðu 74,7% sjúklinga. Kvíða- eða þunglyndisröskun greindist hjá 72,5%, athyglisbrestur og/eða ofvirkni hjá 15,4% og persónuleikaröskun hjá 8,2%.

Lífsalgengi fíkniraskana var 30,8%. Brottfall úr meðferð var 54,4% (um 1/3 kom aftur í meðferð á rannsóknartímabilinu), 27,5% sjúklinga luku meðferð og 18,1% sjúklinga voru enn í meðferð þegar eftirfylgnitíma lauk.

Meðferðarheldni mældist marktækt betri hjá þeim sjúklingum sem höfðu lokið háskólagráðu, höfðu sjálfir frumkvæði að komu og höfðu meiri kvíða eða þráhyggjueinkenni í greiningarviðtali. Sjúklingar með lystarstol héldust best í meðferð en sjúklingar með fíknigreiningu sýndu meiri tilhneigingu til brottfalls, segir í grein sem birt er í Læknablaðinu.

Þó svo rúmlega helmingur hætti í meðferð kemur þriðjungur þeirra sem hættir aftur í meðferð á rannsóknartímabilinu. Þetta er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna sem lýsa því að allt frá 30-70% átröskunarsjúklinga hætta ótímabært í göngudeildarmeðferð.

Lystarstol greindist hjá hlutfallslega færri sjúklingum sem vísað var í meðferð hérlendis en til sambærilegra meðferðarstofnana í öðrum vestrænum löndum. Þar hefur hlutfalli sjúklinga með lystarstol verið lýst að sé allt að 23-40%.

Hlutfallslega greindust mun fleiri með lotugræðgi á Íslandi en átröskum virðist svipað og erlendis. 

Þetta vekur upp þá spurningu hvort lystarstol hafi lægri tíðni í almennu íslensku þjóðarþýði eða hvort sá sjúklingahópur sé einfaldlega að skila sér verr í meðferð hérlendis. Einnig gæti þetta skýrst af því að sjúklingar með lotugræðgi leiti sér frekar aðstoðar á Íslandi og aðgengi að þjónustu fyrir þann hóp sé betra en víða erlendis.

Þá vitum við heldur ekki hve stór hluti sjúklinga með átröskun leitar sér aðstoðar á einkastofum sálfræðinga eða geðlækna, eða til annarra heilbrigðisstétta. Þetta væri áhugavert að skoða betur,“ segir í greininni í Læknablaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert