Of stór fyrir móðurstjörnuna

Teikning listamanns af HATS-6 og gasrisanum sem gengur um hana. …
Teikning listamanns af HATS-6 og gasrisanum sem gengur um hana. Vísindamenn við Þjóðarháskóla Ástralíu ANU fundu fjarreikistjörnuna nýlega. ANU

Frekari rannsóknir á risavaxinni fjarreikistjörnu sem hringsnýst þétt upp við móðurstjörnu sína gætu varpað frekara ljósi á hvar og hvernig reikistjörnur myndast. Fjarreikistjarnan er á stærð við Júpíter en hún er of nálægt móðurstjörnunni til að hún hafi geta myndast þar.

Á meðal þeirra um 1.800 fjarreikistjarna sem menn hafa fundið fram að þessu eru svonefndir „heitir Júpíterar“. Það eru gasrisar sem ganga á braut um móðurstjörnur sínar sem eru nær þeim en Merkúríus er sólinni.

Fjarreikistjarnan sem vísindamenn hafa nýlega fundið gengur um sólstjörnuna HATS-6 og er í um 500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. HATS-6 er svonefndur rauður dvergur, lítil og köld stjarna sem er aðeins um 60% af þvermáli og massa sólarinnar og hefur aðeins 5% af birtu hennar.

Sporbraut gasrisans sem vísindamenn hafa fundið við HATS-6 er aðeins 10% af vídd sporbrautar Merkúríusar um sólina. Gengur reikistjarnan einn hring um stjörnuna á aðeins 3,3 dögum. HATS-6 er ein minnsta stjarnan sem menn hafa fundið heitan Júpíter við og aðeins tvær þekktar fjarreikistjörnur ganga nær stjörnu sinni en fjarreikistjarnan sem hefur hlotið nafnið HATS-6b.

HATS-6b er um hundrað sinnum massameiri en jörðin, svipað massamikil og Satúrnus en aðeins einn þriðji af massa Júpíters. Vegna þess hversu mikið stjarnan hitar hana upp er reikistjarnan útblásin og er hún svipuð að þvermáli og Júpíter.

Ekki nógu mikið efni eftir til að mynda svo stóra reikistjörnu

Reikistjörnur verða til úr umframefni þegar stjörnur myndast úr gas- og rykskýjum í geimnum. Vísindamenn telja að heitir gasrisar eins og HATS-6b myndist þar sem þeir ganga nú á braut. Í svo mikilli nálægð við sólstjörnuna hefði geislun og sólvindur blása burt meirihluta efnisins í kringum stjörnuna. Því yrði of lítið efni eftir til að mynda svo stórar reikistjörnur. Þá er HATS-6 svo lítil að óvenjulegt að finna svo stóra reikistjörnu við hana.

Því telja vísindamenn að reikistjörnur af þessu tagi verði til fjarri stjörnunum en færist svo nær þeim vegna þyngdarverkunar við gasskýin sem umlykja stjörnurnar eftir myndun eða við aðrar nálægar reikistjörnur. Fáar risareikistjörnur hafa enn sem komið er fundist við litlar stjörnur svo lítið er vitað um hvernig þetta ferðalag þeirra á sér stað. Með frekari rannsóknum sem fyrirhugaðar eru á lögun og stefnu sporbrauta fjarreikistjarna af þessu tagi verður mögulega hægt að fá betri hugmynd um það.

Frétt Space.com af reikistjörnunni sem er of stór fyrir stjörnuna sína

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert