Skín á við 300 biljón sólir

Hugmynd listamanns um hvernig ofurbjarta vetrarbrautin WISE J224607.57-052635.0 gæti litið …
Hugmynd listamanns um hvernig ofurbjarta vetrarbrautin WISE J224607.57-052635.0 gæti litið út. Hún er minni en Vetrarbrautin okkar en gefur frá sér 10.000 sinnum meiri orku.

Vetrarbraut í órafjarlægð frá jörðinni er sú bjartasta sem menn hafa fundið. Skín hún eins skært og 300 biljón (milljón milljón) sólir en talið er að risavaxið svarthol í hjarta hennar sé ástæða þessa ógurlega bjarma. Stærð svartholsins vekur spurningar um hvernig það myndaðist skömmu eftir Miklahvell.

Það kann að hljóma þverstæðukennt að svarthol, fyrirbæri sem eru svo massamikil og þétt að ekki einu sinni ljósið sleppur undan þyngdarkrafti þeirra, sé orsök slíkrar birtu. Risasvarthol er hins vegar að finna í hjarta flestra ef ekki allra vetrarbrauta. Þegar efni safnast í kringum þau og fellur inn hitnar það gríðarlega og sendir frá sér óheyrilegt magn sýnilegs og útfjólublás ljóss og röntgenbylgjur.

Vetrarbrautin fannst með WISE-sjónauka bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA en hún er í um 12,5 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni og hefur hlotið hið þjála nafn WISE J224607.57-052635.0. Það þýðir að vísindamenn sjá fyrirbærið eins og það var aðeins rúmlega milljarði ára eftir Miklahvell. Ef það er í raun risasvarthol í hjarta vetrarbrautarinnar sem veldur birtunni vekur það upp spurningar um hvernig það náði að verða svo stórt svo skömmu eftir upphaf hins sýnilega alheims.

Pylsuátskeppni sem stóð yfir í hundruð milljóna ára

Ein kenning er að svartholið hafi einfaldlega myndast stórt. Chao-Wei Tsai, meðhöfundur rannsóknarinnar við JPL-rannsóknastofu NASA, segir að ef svartholið hafi ekki snúist of hratt hafi það mögulega geta sankað að sér efni hraðar en áður var talið mögulegt.

Vaxtarhraði svarthola er takmarkaður við ljósið sem myndast þegar efni hitnar á leiðinni að þeim en það feykir burt gasi í kringum þau. Eftir því sem svartholin snúast hægar, því minna af gasinu blása þau í burtu og því meira af því geta þau drukkið í sig.

„Þetta er eins og að vinna pylsuátskeppni sem stendur yfir í hundruð milljóna ára,“ segir Andrew Blain við Leicester-háskóla á Englandi og einn meðhöfunda rannsóknarinnar.

Frétt Space.com af björtustu þekktu vetrarbrautinni í alheiminum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert