Bráðnun jökulsins veldur jarðskjálftum

Grænlandsjökull hefur bráðnað mikið á undanförnum árum eftir því sem …
Grænlandsjökull hefur bráðnað mikið á undanförnum árum eftir því sem hitastig jarðar hefur hækkað. AFP

Borgarísjakar sem brotna af Grænlandsjökli valda jarðskjálftum sem geta verið rúmlega fimm að stærð og slíkum skjálftum hefur fjölgað mikið frá því á 10. áratug síðustu aldar eftir því sem jökullinn hefur bráðnað meira. Árlega bráðna um 378 milljarðar tonna af ísnum og hækka yfirborð sjávar.

Vísindamenn frá Háskólanum í Swansea, Columbia-háskóla og fleiri stofnunum hafa rannsakað hvernig bráðnun Grænlandsjökuls getur valdið jarðskjálftum. Komu þeir GPS-mælum fyrir á Hellheim-skriðjöklinum á suðausturhluta Grænlands. Þeir fylgdust einnig með fremsta hluta jökulsins þar sem hann brotnar út í sjóinn með myndavélum. Þá notuðu þeir jarðskjálftamælingar til að fylgjast með jarðvirkninni á svæðinu.

Borgarísjakarnir sem brotna úr skriðjöklum Grænlands eru engin smásmíði. Massi þeirra getur numið gígatonni, einum milljarði tonna, og þeir geta verið fjórir kílómetrar að lengd. Þegar þeir brotna af jöklinum losna því miklir kraftar úr læðingi. Ísjakarnir standa í raun upp lóðréttir þegar þeir brotna af en byrja fljótt að hvolfa, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Þegar það gerist dettur hlutinn sem stendur upp úr sjónum og þrýstist gegn skriðjöklinum á meðan neðri hlutinn þrýstist upp á við. Þrýstingurinn frá efri hlutanum við skriðjökulinn er svo mikill að hann ýtir jöklinum til baka tímabundið. Það dugir til þess að láta jörðina skjálfa undir ísnum.

Myndi hækka yfirborð sjávar um sex metra

Til viðbótar þessu myndast pláss á milli borgarísjakans og skriðjökulsins þegar hann brotnar af þar sem vatn flæðir inn. Svæðið hefur lægri vatnsþrýsting en umhverfið sem dregur úr þeim þrýstingi sem vatnið og ísinn setur á jörðina fyrir neðan. Það veldur því að jörðin lyftist sem kemur aftur fram á jarðskjálftamælum. Hamförunum fylgja jafnframt flóðbylgjur sem ganga út firðina þegar ísjakarnir ryðja vatninu frá sér.

Bráðnun Grænlandsjökuls veldur rúmlega eins millímetra hækkun yfirborðs sjávar á ári en árlega bráðna 378 gígatonn af ís jökulsins. Hyrfi jökullinn allur myndi það þýða sex metra hækkun yfirborðs sjávar. Hann minnkar nú aðallega vegna jökla sem skríða fram í sjó og brotna en einnig þegar bráðnunarvatn sem myndast ofan á jöklinum kemst niður í gegnum sprungur og alla leið út í sjó.

„Jarðskjálftarnir sjálfir valda ekki óstöðugleika í íshellunni en þeir eru merki um þá staðreynd að hún er að minnka og hörfa,“ segir Meredith Nettles frá Lamont-Doherty-jarðathuganastofnun Columbia-háskóla í New York.

Frétt Washington Post af jarðskjálftunum í Grænlandsjökli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert