Lok, lok og læs á Reddit

Þessi skilaboð blasa við þeim sem reyna að fara inn …
Þessi skilaboð blasa við þeim sem reyna að fara inn á þráðinn r/music á Reddit. Umsjónarmenn þráðsins hafa lokað fyrir almennan aðgang að honum vegna atburðanna. Skjáskot

Fjölda stórra undirþráða samfélagssíðunnar Reddit hefur verið lokað af umsjónarmönnum þeirra. Með því vilja þeir mótmæla skyndilegri brottvikningu samskiptastjóra Reddit og því sem þeir telja sinnuleysi eigenda síðunnar.

Sögur af skyndilegri brottvikningu samskiptastjórans Victoriu Taylor hafa farið eins og eldur í sinu um Reddit-samfélagið og brugðust umsjónarmenn stórra hluta síðunnar við með því að loka fyrir aðgang að þeim nema fyrir umsjónarmenn og þá sem hafa fengið leyfi til að birta efni þar. Reddit byggist upp á þráðum sem nefndir eru reddit þar sem notendur deila efni um tiltekin málefni eins og tónlist, kvikmyndir, heimsfréttir og ótal aðra hluti.

Taylor hefur meðal annars stjórnað vinsælum þræði sem nefnist AMA þar sem notendur hafa getað sent inn spurningar til fólks sem situr fyrir svörum. Barack Obama Bandaríkjaforseti og Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, eru á meðal þeirra sem þar hafa setið fyrir svörum.

Fyrir utan brottrekstur Taylors hafa notendur Reddit verið ósáttir við þá sem reka sjálfa síðuna um lengri tíma. Tímabundinn framkvæmdastjóri Reddit, Ellen Pao, hefur þannig gert ýmsar breytingar á reglum síðunnar til þess að reyna að hreinsa upp orðsporið sem fer af henni. Fyrir utan uppbyggilegri umræður um heimsmál og vísindi er einnig hægt að finna klám, ofbeldi og fleira misjafnt í þeim aragrúa þráða og undirþráða sem síðan býður upp á.

Frétt Washington Post af uppþotunum á Reddit

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert