Skannað fyrir húðkrabba með snjallsíma

Litrófsmælar í snjallsímum framtíðarinnar gætu gert fólki kleift að skima …
Litrófsmælar í snjallsímum framtíðarinnar gætu gert fólki kleift að skima sjálft fyrir húðkrabbameini.

Litrófsmælar eru eitt gagnlegasta tól vísindanna og eru meðal annars notaðir í stjörnufræði, læknisfræði og efnafræði. Tveir vísindamenn hafa nú hannað frumgerð að handhægum litrófsmæli sem gæti einn daginn komist fyrir í snjallsímum og gert notendum þeirra kleift að skima sjálfir fyrir krabbameini.

Sýnilegt ljós samanstendur af mörgum mismunandi bylgjulengdum mismunandi litaðs ljóss. Þegar efni gefur frá sér eða endurkastar ljósi skilur það eftir sig auðkennandi fingrafar í litrófi ljóssins. Þetta hefur til dæmis gert mönnum kleift að efnagreina fjarlæga hnetti með því að gera litrófsgreiningu á ljósinu sem berst frá þeim.

Jie Bao, eðlisfræðingur við Tsinghua-háskóla í Beijing í Kína, ásamt Moungi Bawendi, efnafræðingi við MIT-háskóla, hafa nú þróað leið til að gera litrófsmælana minni, léttari og ódýrari en áður var talið hægt.

„Auðvitað getum við enn bætt hann mikið en hvað varðar getuna þá jafnast litrófsmælirinn okkar á við það sem er selt á markaðinum nú um stundir hvað varðar getu, jafnvel á þessu þróunarstigi,“ segir Bao.

Vegna þess hversu mikið litrófsmælar eru notaðir í vísindum sér Bao fyrir sér ýmis not fyrir þessa handhægu útgáfu. Þannig væri auðveldlega hægt að koma þeim fyrir í snjallsímum og úrum þannig að notendur þeirra gætu sjálfir skimað fyrir húðkrabbameini.

Þá gæti þessi nýja tækni auðveldað geimfarasmiðum lífið í framtíðinni. Litrófsmælar eru á hér um bil öllum könnunargeimförum. Mikilvægt er að hala geimförum eins léttum og hægt er því hvert einasta aukakíló þýðir að eldsneytisþörf eldflauganna sem koma þeim út í heiminn eykst enn meira.

„Fólkið sem skipuleggur geimleiðangra er í raun að telja hvert einasta gramm þannig að þetta væri auðveld leið til þess að draga úr þyngd,“ segir Bao.

Frétt á vefnum Popular Mechanics

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert