„Veðuráhrif langt út fyrir svæðið“

Myndin sýnir frávik frá meðalyfirborðshita sjávar. Myndin sýnir að hlýi …
Myndin sýnir frávik frá meðalyfirborðshita sjávar. Myndin sýnir að hlýi sjórinn færist nær uppstreymi kalda sjósins við strendur Suður-Ameríku og getur það valdið öfgakenndara veðurfari. Mynd/Climate Prediction Center

„Vindáttirnar í sjónum ýta yfirborðssjó til vesturs og það togar upp kaldan sjó við strendur Suður-Ameríku af nokkru dýpi. Uppstreymi kalds sjávar á þessu svæði er því talsvert.“ Svona hefst lýsing Halldórs Björnssonar, hópstjóra veðurs- og loftlagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands á náttúrufyrirbærinu El Niño sem mbl.is greindi frá fyrir skömmu.

Sjá frétt mbl.is: „El Niño “ ekki lengur barn

„Þetta uppstreymi viðheldur kaldari skilyrðum. Svo gerist það reglulega að það dregur úr þessum vindi og þá færist heiti sjórinn tilbaka upp að ströndum Suður-Ameríku og uppstreymi kalds sjávar hættir tímabundið. Það hefur rosaleg áhrif á veður á þessu svæði. Þar sem þetta er á hitabeltinu og stærsti hluti flatarmáls jarðar er einmitt á því belti þá hefur þetta áhrif á hnattrænt meðalhitastig. Það munar rosalega miklu um hitann í Kyrrahafinu.“

„Þetta fyrirbæri hefur veðurfarsáhrif langt út fyrir svæðið, en sérstaklega er það hnattræna meðaltalið sem það hefur áhrif á. Þetta gerist yfirleitt tvisvar til þrisvar á áratug. Frá 2005 er þetta nú að gerast í annað sinn,“ segir Halldór.

Vísindamenn telja að komandi El Niño muni standa fram yfir vorið 2016, jafnvel fram á haust en nái hámarki nú um áramótin.

Sjá þróun yfirborðshitastigs á hitabeltinu

„Núna er El Niño orðinn nokkuð útbreiddur og sjórinn á svæðinu nokkuð hlýr. Það sem gerist er að þetta heldur áfram að dreifa úr sér til austurs. Flestar spár gera ráð fyrir að sjórinn haldi áfram að hitna og að fyrirbærið lifi af næsta vetur.“

Kemur loks rigning í Kaliforníu?

Halldór tekur hins vegar fram að El Niño-spárnar eru ekkert sérstaklega nákvæmar. „Um leið og verið er að spá lengra en þrjá mánuði fram í tímann eru þær orðnar verulega slappar.“

Um áhrifin á veðurfar í heiminum segir Halldór:

„Þetta hefur áhrif um allan heim. Reyndar erum við það langt frá að við sjáum ekki mikil veðurfarsáhrif. Þetta hefur mestu áhrifin á Kyrrahafssvæðinu. Það myndast oft þurrkar og skógareldar í Indónesíu. Það eru oft aftakarigningar í Suður-Afríku og alls konar skringilegt veður meðfram ströndum Norður-Ameríku. Það er allur gangur á því hvort það valdi rigningum í Kaliforníu. Menn eru nú að vona að þeir fái rigningu þar vegna þess að gríðarlegir þurrkar hafa geisað í ríkinu. Það væri í raun það besta sem kæmi út úr þessu ef það fer að rigna á vesturströnd Kaliforníu.“

Kaldi sjórinn við Ísland annars eðlis

Síðastliðin ár hefur sjórinn suðvestur af Íslandi verið kaldur. Aðspurður hvort kaldi sjórinn á því svæði gæti valdið öfgakenndara veðurfari á Íslandi segir Halldór:

„Norðan við landið er sjórinn alls ekki óvenju kaldur og hann er aðeins undir meðallagi sunnan við landið. En síðan er suðvestur í hafi búið að vera nokkuð kalt. Það stafar líklega af því að það var mikill djöfulgangur í veðri í fyrra og mikið af köldu lofti sem fór út á Atlantshafið og sogaði hitann upp úr sjónum. Er sjórinn sennilega enn kaldur eftir þann tíma. Lægðirnar sem koma til okkar og það loft sem kemur yfir landið er því að fara yfir aðeins kaldari sjó en venjulega og við finnum fyrir því.“

„Það er alls ekki hægt að segja að við séum að uppskera mikið af þeim hlýindum sem eru á jörðinni enda eru þau mest á hitabeltinu í augnablikinu.“

Kaldi sjórinn suðvestur af landinu er þó allt annars eðlis en uppstreymi kalds sjávar í Kyrrahafinu. „Þetta er allt annað. Í fyrsta lagi er þetta svo ofboðslega lítið flatarmál. Þetta hefur bara staðbundin áhrif og þau eru ekki ýkja mikil. Menn geta týnt sér svolítið í þessu, en ef fylgnin er reiknuð út, þá útskýrir hún mjög lítinn hluta breytinganna á veðurfari hér á landi. Áhrifin eru til staðar en þau eru ekki ráðandi.,“ segir Halldór.

Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands.
Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs- og loftslagsbreytinga hjá Veðurstofu Íslands. Mynd/Veðurstofa Íslands
Myndin sýnir hitastigið á yfirborði sjávar í ágúst 1997 annars …
Myndin sýnir hitastigið á yfirborði sjávar í ágúst 1997 annars vegar og í ágúst 2015 hins vegar. Eins og sést hefur heitur sjór færst í austurátt að Suður-Ameríku líkt og gerðist árið 1997 þegar El Niño varð síðast afar kraftmikill. Mynd/NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert