„El Niño“ ekki lengur barn

Þessi mynd sýnir hitastig við yfirborð sjávar, annars vegar árið …
Þessi mynd sýnir hitastig við yfirborð sjávar, annars vegar árið 1997 og hins vegar nú árið 2015. Mynd/NASA

Vísindamenn hjá NASA hafa nú varað við breytingum á staðvindum í Kyrrahafinu, fyrirbæri sem kallað hefur verið El Niño og hefur skapað óveður í Kyrrahafinu í mörg ár. Útlit er fyrir að fyrirbærið verði öflugra í ár en oft áður. Ástæðan er sögð vera sú að hitastigið við yfirborð Kyrrahafsins er hærra en það hefur verið í mörg ár.

Vísindamenn hjá NASA telja að El Niño muni í ár leiða til mikils óveðurs í Norður-Ameríku, og er þá sérstaklega Kalifornía í hættulegri stöðu. Miklir þurrkar hafa geisað þar undanfarin ár og er talið að mikið óveður og hitabeltisstormar muni binda enda á þá þurrka í haust.

Árið 1997 urðu breytingarnar á staðvindum sérstaklega öflugar. Alls létust 23 þúsund manns af völdum hitabeltisstorma og þurrka beggja megin við Kyrrahafið. Skógareldar, flóð og öfgakennt veðurfar geisaði í Suður-Ameríku og Indónesíu og Kaliforníu. Samkvæmt National Geographic var eyðileggingin það árið talin hlaupa á 33 milljörðum dollara. 

„Ef El Niño heldur áfram að þróast eins og hann hefur verið að gera, mun það ekki aðeins hafa áhrif á Norður-Ameríku heldur alla jörðina,“ segir Bill Patzert, vísindamaður hjá NASA sem rannsakar loftlagsbreytingar. 

Sjá frétt Dagbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert