Reikistjörnur líklega að verki

Rákirnar í gasskífunni sem umlykur HL Tau gætu verið myndaðar …
Rákirnar í gasskífunni sem umlykur HL Tau gætu verið myndaðar af reikistjörnum sem eru að fæðast. ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)

Eftir nokkrar deilur á meðal stjarnvísindamanna virðist ný rannsókn hafa staðfest að mynd sem ALMA-útvarpssjónaukinn náði af sólkerfi í fæðingu sýni í raun reikistjörnur að verða til í kringum sólstjörnu. Myndin var birt á síðasta ári en menn hafa ekki verið á einu máli um hvað sé hægt að greina á henni.

Á myndinni sást gasskífa í kringum sólstjörnuna HL Tau í stjörnumerkinu Nautinu. Stjarnan er um milljón ára gömul, sem er kornungt á stjarnfræðilegan mælikvarða, og hún er í um 450 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Myndin er sú skýrasta sem náðst hefur af gasskífu utan um unga stjörnu.

Það sem vakti deilur var hvort að rákir sem sjást í skífunni væru merki um risavaxnar reikistjörnur sem þar væru að myndast úr gasinu og rykinu. Ný rannsókn vísindamanna við Háskólann í Toronto í Kanada bendir til þess að sú sé raunin. Þeir könnuðu hvort að mögulegt væri að að reikistjörnur gætu búið í svo þéttu sambýli.

Niðurstaðan var sú að ef reikistjörnur ollu í raun rákunum í gasskífunni þá gæti ákveðinn samhljómur í sporbraut þeirra haldið kerfinu stöðugu sem myndi að öðrum kosti rifna í sundur vegna þyngdarkraftanna sem myndu virka á milli stórra reikistjarna svo þétt upp við hver aðra.

Daniel Tamayo, yfirhöfundur rannsóknarinnar, segir niðurstöðuna ekki afdráttarlausa en sterkar vísbendingar séu til staðar um að það séu reikistjörnur sem valdi rákunum í skífunni. Óumflýjanlegt sé hins vegar að kerfið leysist upp á endanum eftir því sem reikistjörnurnar verða massameiri.

„Kerfið er tifandi tímasprengja,“ segir Tamayo.

Frétt Space.com um sólkerfið HL Tau

Fyrri frétt mbl.is: Reikistjörnur í móðurkviði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert