Hávaxnir í meiri hættu á að fá krabbamein

Sultan Kosen er hæsti maður heims
Sultan Kosen er hæsti maður heims MEHMET ENGIN

Sænsk rannsókn á fimm milljón manns virðist styðja þá kenningu að það séu tengsl milli hæðar og hættu á að fá krabbamein. Rannsókn vísindamannanna frá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi leiddi í ljós að hávaxnir ættu það frekar á hættu að fá meðal annars brjóstakrabbamein og húðkrabbamein.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að fyrir hverja tíu sentimetra af hæð fullvaxta manneskju jókst áhættan á krabbameini um 18% hjá konum og 11% hjá karlmönnum. Sérfræðingar segja þó að ekki sé tekið tillit til margra annarra áhættuþátta og því þurfi hávaxið fólk ekki að örvænta.

Fylgst var með stórum hópi fullorðinna Svía í meira en 50 ár. Þátttakendur voru fæddir á árunum 1938-1991 og var hæð þeirra á milli 98 og 228 cm.

Hávaxnar konur voru 20% líklegri til að þróa með sér brjóstakrabbamein og hávaxnari karlar og konur 30% líklegri til að fá húðkrabbamein.

„Ástæður krabbameins eru margþættar og því er erfitt að segja fyrir um hvaða áhrif niðurstöðurnar hafa á krabbameinslíkur hjá einstaklingum,“ sagði Emelie Benyi, sem stjórnaði rannsókninni.

Meiri húð og fleiri frumur

Eitt af því sem getur valdið þessu er að hávaxið fólk er hreinlega með fleiri frumur í líkamanum út af stærð sinni og þar af leiðandi auknar líkur á að ein þeirra breyti sér í krabbameinsfrumu.

„Líkur á húðkrabbameini geta líka aukist með stærra svæði, meiri húð, sem tengist hæð,“ hefur BBC eftir prófessor Dorothy Bennett frá University of London.

Sarah Williams, hjá krabbameinssamtökum í Bretlandi, benti á að rannsóknin tæki ekki tillit til annarra þátta eins og reykinga eða hvort konur færu í brjóstaskoðun eða ekki. „Alveg sama hver hæð þín er þá geturðu gert ýmislegt til að minna líkurnar á krabbameini. Ekki reykja, minnkaðu áfengisdrykkju, borðaðu hollt, hreyfðu þig, vertu í kjörþyngd og njóttu sólar á öruggan hátt,“ bætti hún við.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert