Hægt að skrá tíðni kynmaka

Í forritið er hægt að skrá margvíslegar upplýsingar um heilsu …
Í forritið er hægt að skrá margvíslegar upplýsingar um heilsu og almennt líkamsástand.

 Í stýrikerfi Apple, iOS9, er í nýjustu uppfærslunni boðið upp á nýjan möguleika fyrir konur: Að skrá hvenær þær hafa kynmök ásamt upplýsingum um tíðahring sinn. 

Í fyrri útgáfu af HealthKit-hugbúnaðinum frá Apple vantaði þennan möguleika. Í hann er einnig hægt að skrá allt milli himins og jarðar sem tengist heilsu, s.s. vítamíninntöku.

Þegar eru á markaðnum margvísleg öpp sem konur nota til að fylgjast með tíðahring sínum. Apple og fleiri tæknirisar höfðu hins vegar verið gagnrýndir fyrir að beina sjónum sínum ekki nægilega að heilsu kvenna. 

Í frétt BBC um málið segir að konur sem eru að reyna að verða óléttar fylgist náið með tíðahring sínum og ýmsu öðru er varðar heilsuna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Apple eru það notendurnir sem ákveða hvaða upplýsingar þeir færa inn í hugbúnaðinn. Fyrirtækið segir að upplýsingarnar séu dulkóðaðar bæði í símanum sjálfum og einnig ef þær eru hýstar í skýi.

„Fullt af fólki fylgist með upplýsingum sem hjálpa því að skipuleggja barneignir,“ er haft eftir lækninum Ricky Bloomfield, prófessor við Duke-háskóla, í frétt BBC. Hann tekur þátt í þróun á notkun HealtKit ásamt sjúklingum sínum. 

Í hugbúnaðinum er m.a. hægt að skrásetja kynmök, hvort og hvaða getnaðarvarnir voru notaðar, líkamshita og margt fleira. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert