Glæsilegur en skammlífur Star Wars-leikur

Star Wars: Battlefront kom út í byrjun vikunnar.
Star Wars: Battlefront kom út í byrjun vikunnar. AFP

Tölvuleikurinn Star Wars: Battlefront, sem Sigurlína Ingvarsdóttir er yfirframleiðandi að, kom í verslanir í byrjun vikunnar við mikla eftirvæntingu Stjörnustríðsaðdáenda og tölvuleikjaspilara. Fyrstu dómar um leikinn eru á þá leið að sem Stjörnustríðsleikur sé hann gullfallegur en sem skotleikur sé hann takmarkaður.

Star Wars-battlefront er fyrstu persónu skotleikur sem á sér stað í Stjörnustríðsheiminum. Gagnrýnendum ber saman um DICE, þróunarverinu sem framleiddi leikinn, hafi tekist fantavel upp að endurskapa þennan heim og spilarar geti sannarlega látið draumóra sína um ævintýri í honum rætast. Umhverfið sé listilega vel gert sem og hljóðin sem eru svo einkennandi fyrir Stjörnustríðsmyndirnar.

Aðaláhersla Battlefront er á fjölspilun um netið þar sem spilarar geta att kappi hver við annan eða unnið saman í liðum. Helsta gagnrýnisefni í þeim dómum sem hafa birst um leikinn fram að þessu er því hversu þunnur sá hluti leiksins sem spilara geta spilað einir er.

Gagnrýnandi The Guardian segir að EA, útgefandi leiksins, hafi lagt sig í lima við að útskýra að Battlefront sé ekki beint að harðkjarnaspilurum skotleikja heldur að Stjörnustríðsaðdáendum. Það sé allt gott og blessað en kröfurnar til spilunarinnar séu þó þær sömu.

„Ef þú getur ekki skotið, hreyft þig, eða brugðist við nógu hratt muntu dúsa á botni allra deildarkeppna á hverju kvöldi og líða eins og Jar Jar Binks í þínum eigin Stjörnustríðsdraumórum. Fyrir þessa leikmenn er ekki margt annað að gera,“ segir í dómi blaðsins.

Þá séu tiltölulega fá umhverfi í leiknum þannig að hættan sé sú að hann verði fljótt einhæfur og spilarar fái leið á honum. Spilunin sé einnig of einföld til þess að halda athygli þeirra sem spili mikið af skotleikjum á netinu.

„Það er hægt að skemmta sér, sérstaklega þegar sjónarspil Stjörnustríðs er í algleymingi. Það sjónarspil dofnar hins vegar fljótt og eftir stendur leikur með of fá vopn, umhverfi og söguhetjur,“ segir í dómi Hardcore Gamer.

Fyrri frétt mbl.is: Vinnur í Stjörnustríðsheiminum

Leikurinn er skotleikur sem á sér stað í Stjörnustríðsheiminum.
Leikurinn er skotleikur sem á sér stað í Stjörnustríðsheiminum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert