Slúðrað um uppgötvun þyngdarbylgna

Þyngdarbylgjur eru taldar geta myndast við meiriháttar atburði í tímarúminu …
Þyngdarbylgjur eru taldar geta myndast við meiriháttar atburði í tímarúminu eins og árekstur svarthola eða við útþenslu alheimsins í kjölfar Miklahvells. ESO/L. Calçada

Sá orðrómur hefur gengið fjöllunum hærra undanfarið að teymi vísindamanna hafi í fyrsta skipti numið svonefndar þyngdarbylgjur sem afstæðiskenning Alberts Einstein spáði fyrir um. Slík uppgötvun hefði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á upphafi alheimsins og staðallíkan eðlisfræðinnar.

Heimsfræðingurinn Lawrence Krauss skrifaði á Twitter í byrjun vikunnar að hann hafi fengið staðfest að orðrómar sem hann hafði heyrt um að bandarískt teymi vísindamanna hafi greint þyngdarbylgjur með LIGO-tilrauninni væru á rökum reistir. Þyngdarbylgjur hafi þannig mögulega verið uppgötvaðar.

Þyngdarbylgjum hefur verið lýst sem nokkurs konar gárum í tímarúminu. Af kenningum Einstein leiddi að slíkar bylgjur yrðu til í gríðarlegum hamförum þegar fyrirbæri með sterk þyngdarsvið eins og tvö svarthol rekast saman. Bylgjur færu þá um tímarúmið líkt og um yfirborð tjarnar þegar steini er kastað ofan í hana.

Hafi þyngdarbylgjur í raun greinst verður það ein mikilvægasta staðfesting á afstæðiskenningu Einsteins og rennir stoðum undir kenninguna um að alheimurinn hafi þanist út í svonefndri óðaþenslu eftir Miklahvell. Það vekur jafnframt vonir um að hægt verði að sameina afstæðiskenninguna og kenningar skammtafræðinnar sem hingað til hefur ekki verið hægt að koma heim og saman í eina heildstæða kenningu.

Mikið var látið með þegar vísindamenn við aðra bandaríska tilraun, BICEP2, tilkynntu í hittifyrra að þeir hefðu greint þyngdarbylgjur. Flest bendir hins vegar til að sú hafi ekki verið raunin. LIGO-hópurinn er hins vegar sagður vinna að greina sem lýsir uppgötvuninni.

Talsmaður LIGO-hópsins segir við The Guardian að mælitæki tilraunarinnar séu enn að gera athuganir og tíma taki að greina, túlka og fara yfir gögnin. Ekki sé hægt að greina frá neinum niðurstöðum ennþá.

„Ég veit ekki hvort að orðrómurinn sé traustur. Ef ég heyri ekkert meira á næstu tveimur mánuðum geri ég ráð fyrir að hann hafi verið rangur,“ segir Krauss.

Nánar er hægt að lesa um þyngdarbylgjur á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert