Þorp rís senn á tunglinu

Ein af hugmyndunum um Mánabyggð.
Ein af hugmyndunum um Mánabyggð.

Geimferðastofnun Evrópu (ESA) áformar að reisa á tunglinu alþjóðlegt þorp, Mánabyggð, til vísindarannsókna. Er því ætlað að vera komið í notkun kringum árið 2030. Hlutskipti þess verður meðal annars að leysa af hólmi alþjóðlegu geimstöðina (ISS) sem verið hefur á braut um jörðu, en áætlanir kveða á um lokun hennar um 2024.

Samkvæmt áformum ESA munu vélmenni og þrívíddarprentarar reisa mannvirki á tunglinu. Byggingarefni verður fyrst og fremst tunglryk sem nóg er af á yfirborði mánans.

Væntanlegar vísindarannsóknir í tunglþorpinu þurfa alls ekki að einskorðast við athuganir á tunglinu. Heldur geta þær orðið liður í enn frekari geimrannsóknum og þorpið jafnvel átt eftir að verða viðkomustaður á ferðum til fjarlægra stjarna. Ennfremur mætti hugsa sér að námavinnsla yrði stunduð frá þorpinu, að sögn ESA.

Þannig sjá teiknarar fyrir sér mögulega uppbyggingu þorps á tunglinu.
Þannig sjá teiknarar fyrir sér mögulega uppbyggingu þorps á tunglinu. Morgunblaðið/Wikipedia

Framtíðarsýn ESA í málefnum tunglsins var kynnt á blaðamannafundi í stöðvum stofnunarinnar í París fyrir síðustu helgi. „Geggjuð hugmynd“ segja sumir en ESA er alvara. Forstjórinn, Jan Woerner, lýsti byggingaráformum á hinum hrímföla og gráa fylgihnetti jarðarinnar en sagði þau enn vera á hugmyndastigi. Ramminn lægi þó fyrir og viðræður stæðu nú yfir við fjölda aðila um heim allan til að kanna hvort nægur áhugi væri fyrir verkefninu til þess að hrinda því í framkvæmd. Málið væri að verða aðkallandi vegna fyrirsjáanlegra endaloka ISS.

Tunglþorpið er meðal annars hugsað sem stökkpallur fyrir Marsleiðangra framtíðarinnar og gæti þess vegna orðið til afnota fyrir mismunandi lönd og ólíkar geimferðastofnanir, svo sem bandarísku geimferðastofnunina NASA og rússnesku og kínversku systurstofnanir hennar.

Alþjóðageimstöðin (ISS) er samstarfsverkefni Evrópu, Kanada, Bandaríkjanna, Japans og Rússlands. Bandaríkjamenn tilkynntu 2014 að þeir áformuðu að halda rekstri stöðvarinnar áfram til 2024, eða fjórum árum lengur en áður hafði verið miðað við. Ýmis Evrópuríki létu í ljós efasemdir um ágæti þess, m.a. á grundvelli kostnaðar. Öll aðildarríki Geimferðastofnunar Evrópu (ESA) hafa þó í millitíðinni samþykkt fjárveitingar vegna ISS út árið 2024. Undantekning þar á er Evrópusambandið (ESB) sjálft sem situr enn fast við sinn keip um að leggja stöðinni ekki til fjármagn eftir 2020. Fregnir herma, að Rússar séu að leita leiða til að koma upp eigin stöð á braut um jörðu og Kínverjar áforma vísindaleiðangra til tunglsins, en þangað skutu þeir rannsóknarfarinu Chang'e-3 árið 2013. Starfar það enn og sendir mæligögn og greiningar sínar til jarðar. Var það fyrsta mjúklending geimfars á tunglinu í 37 ár, eða frá 1976. Að sögn Woerners standa byggingaráform ESA á tunglinu undir sér sjálf og byggjast ekki á samþykki eða synjun annarra ríkja.

Hvar er best að nema land?

„Það sem hins vegar mestu varðar er að komast að því með viðræðum hvar best er að nema land með byggðinni á tunglinu. Er það á myrku hliðinni, þeirri sem snýr til jarðar, eða á öðrum hvorum pólnum?,“ sagði ESA-stjórinn við frönsku fréttastofuna, AFP.

ESA sér fyrir sér að bæði geimfarar og vélmenni sinni rannsóknum og öðrum störfum í tunglþorpinu. Það yrði í engu líkt byggð á jörðu niðri, til að mynda yrðu þar hvorki lítil einbýlishús, ráðhús né kirkja, eins og Woerner komst að orði, en hann tók við framkvæmdastjóratarfi ESA í júlí í fyrra. Þorpið yrði til margra nota brúklegt og til brúks af fjölda aðila.

„Kannski eitt land hafi meiri áhuga á vísindavinnu í þorpinu, einkafyrirtæki vilji spreyta sig á námavinnslu og þriðji aðilinn nýta sér það sem áfanga til frekari geimrannsókna. Heildaráætlun liggur fyrir og við eigum nú í viðræðum við aðila um allar jarðir til að kanna hvort nægur áhugi sé fyrir hendi til að hefjast frekari handa og reisa þorpið,“ sagði Woerner á blaðamannafundinum. Samstaða væri nauðsynleg um að fjöldi þjóða myndi í sameiningu hefja tunglferðir.

ISS hefur sannað gildi sitt

Hann sagði að byggingarframkvæmdir myndu ekki hefjast fyrr en eftir að geimstöðinni ISS hefði verið lokað, eða eftir 2024. Stöðina sagði hann hafa sitt gildi og kvaðst binda vonir við að ESA héldi áfram þátttöku í verkefninu, en ESB hefur enn sem komið er aðeins skuldbundið sig til þátttöku í henni út árið 2020. „Ég sé Mánabyggð sem ákjósanlegan arftaka geimstöðvarinnar til geimrannsókna. Enn sem komið er eru engir aðrir kostir til að keppa við hana á borðinu,“ sagði Woerner.

Þegar ákvörðun um staðsetningu Mánabyggðar liggja fyrir segir Woerner að einstök lönd og geimferðastofnanir muni í framhaldi af því móta í hverju þátttaka þeirra í verkefninu yrði fólgin. Og hverjir skyldu vilja eiga hlut að máli? „Rússar eru með áætlanir um tunglferðir svo við gætum boðið þeim að taka þátt í þorpsbyggingunni,“ sagði Woerner og bætti við að Kínverjar væru einnig í rannsóknum á tunglinu. Hugmyndin er að sérfræðingar um heim allan gætu lagt fram háþróaða tækni, þekkingu og jafnvel geimfara til undirbúnings Marsferðum. Sömuleiðis væri hægt að stunda í þorpinu sömu rannsóknir í líf- og eðlisfræði sem stundaðar væru í alþjóðlegu geimstöðinni, ISS.

Woerner sagði að sér væri ekkert á móti skapi þótt einhverjir teldu hugmyndir hans gapalegar. „Klikkað, það er akkúrat einkunn sem ég myndi kunna við. Við verðum að hugsa út fyrir rammann. Sem kallar á nýjar hugmyndir.“ Þegar hann tók við starfi sagði hann að tunglið yrði þungamiðja viðfangsefna stofnunarinnar í framtíðinni. Mánabyggð yrði og lykill að frekari geimrannsóknum, ekki síst á Mars.

ESA-stjórinn segist hafa varpað hugmyndum um Mánabyggð fram á tveimur ráðstefnum um geimrannsóknir í fyrra, í Bandaríkjunum og Ísrael. Í framhaldinu hafi margar stofnanir haft samband og spurt hvernig þær gætu orðið að liði og tekið þátt. Áform ESA yrðu einnig til umfjöllunar á fundum með geimferðastofnunum Bandaríkjanna, Japans, Kanada og Rússlands á næstu vikum um framtíð ISS. „Framundan eru einnig viðræður við önnur ríki víða um heim. Við þurfum að fá vísbendingar um hvert skuli stefna og hvað þurfi að gera,“ segir Woerner.

Kínverjar áforma að lenda á fjarhlið tunglsins árið 2018

Það eru fleiri en Evrópumenn sem sýna tunglinu mikinn áhuga um þessar mundir. Það gera Kínverjar líka en þeir hafa nú í ársbyrjun boðað að þeir muni senda geimfar til að lenda á þeirri hlið mánans sem ætíð snýr frá jörðu.

Sú hlið öðlaðist frægð með einni bestu hljómplötu bresku rokksveitarinnar Pinl Floyd, The Dark Side of the Moon. Viðfangsefni hennar var geðveiki, græðgi, átök og deilur en í augum Kínverja er fjarhliðin ekkert annað en víðerni til ákjósanlegra jarðfræðirannsókna – og hugsanlega merkilegra uppgötvana á því sviði.

Samkvæmt nýjustu áformum stefna Kínverjar Chang'e-4 könnunarfari til lendingar á fjarhlið tunglsins árið 2018. Er það tveimur árum fyrr en eldri áætlanir kváðu á um. Engir aðrir hafa freistað þess að lenda geimfari á myrku hliðinni og því ríkir viss eftirvænting vegna kínverska farsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert